04.07.1913
Neðri deild: 3. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (13)

4. mál, landsreikningar

Ráðherrann (H. H.):

Ástæðurnar til þess að reikningurinn var ekki fyr til, eru þær, að þriðja skrifstofa stjórnarráðsins er mjög önnum hlaðin. Því miður eru oft seinar innborganir í landssjóð, svo að jarðabókasjóðsreikningurinn verður ekki til fyr en hálfu ári eftir á, eða meira, á eftir tímanum og dregst því að Sjálfsögðu oft lengi, að unt verði að byrja á landsreikningnum. Eg get nú lýst yfir því, að það er búið að svara athugasemdum endurskoðendanna, og býst eg við að hægt verði að útbýta reikningnum prentuðum með athugasemdum og svörum hér í deildinni innan fárra daga.

Það er svo sem ekkert nýtt að landsreikningurinn komi seint. Það hefir komið fyrir oft áður, að ekki hefir verið hægt að útbýta honum fyr en nokkrum dögum eftir þingsetningu. En það er ekki nema gott að þessu sé hreyft, því útgáfu landareikningsins þyrfti að flýta svo sem unt er. Það hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess í stjórnarráðinu að hraða landsreikningnum fyrir 1912–13, og vona eg að hann verði fyr tilbúinn en reikningurinn 1910–11.