02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í C-deild Alþingistíðinda. (1301)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Jón Magnússon:

Eg er þakklátur háttv. fjárlaganefnd fyrir undirtektir hennar undir þetta mál.

Hvað brtill. nefndarinnar snertir, eru þær fyllilega á rökum bygðar. Sýslu nefndin í Vestmannaeyjum hefir gefið það í skyn, að þótt landssjóður legði að eins fram 1/4 kostnaðarins, mundi vera hægt að koma fyrirtækinu í framkvæmd. 1. breyt.till. nefndarinnar finst mér því sanngjörn samkvæmt reglu þingsins í þessu efni.

Í viðbót við nefndarálitið skal eg geta þess, að góð höfn er eyjarskeggjum alveg bráðnauðsynleg. Á vetrum eru mótorbátar þeirra oft í stórhættu og skemdir á þeim alltíðar, og hefi eg sýnt fram á það við 1. umr. þessa máls, hve afarnauðsynlegt sé að vernda þann útveg.

Eg get sagt það enn, sem eg tók fram við 1. umr., að eg tel óhætt að treysta því, að tekjurnar af höfninni verða áreiðanlega heldur meiri en minni en ráð er fyrir gert af sýslunefndinni.

Eg skal enn fremur geta þess, að mikil líkindi eru til þess, að maður fáist til að taka að sér hafnargerðina fyrir ið áætlaða verð.

Sérstaklega skal eg geta þess um undanþáguna, sem nefndin vill gera í 4. gr., viðvíkjandi lóðarsamningi Arents Claessens, að sýslumaður Vestmanneyja, sem nú er hér staddur, hefir sagt mér, að sá samningur kæmi alls ekki í bág við fyrirtækið, heldur mundi miklu fremur verða því til stuðnings.