02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í C-deild Alþingistíðinda. (1315)

26. mál, sparisjóðir

Enn fremur er gert ráð fyrir því í frumv. stjórnarinnar, að sparisjóðirnir greiði landssjóði ákveðna »procent« af viðakiftaveltunni í notum þess, að landssjóðurinn á að borga eftirlitsmanninum. Hér ber því alt að sama brunni. Sparisjóðunum gert erfðara fyrir með það að ávaxta fé sitt og ýmislegur kostnaður lagður á þá. Enn er á það að líta, að þessi eftirlitsmaður á að vera fyrir alt landið, og með það fyrir augum skil eg ekki í því, að hann geti gert verulegt gagn eða lögin náð tilgangi sínum. Árið 1910 voru 25 sparisjóðir hér á landi:

10 á Norðurlandi, 9 á Vesturlandi og 6 á Suðurlandi. Og þessi eini maður á að heimsækja alla þessa sjóði og rannsaka hag þeirra. Eg er hræddur um, að þessi eini maður fari að verða nokkuð dýr og láti sér ekki lengi nægja með 1200 kr. laun á ári, eða 5 kr. dagpeninga. Þess vegna má gera ráð fyrir að launin verði hækkuð von bráðar, ferðakostnaðurinn aukinn o. s. frv., og getur þá þessi eftirlitamaður orðið dýr landinu áður lýkur. Það er alveg rétt hjá háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.), að fyrst um sinn mundi hann vanta öll skilyrði til þess að geta dæmt um ýmislegt, er að starfi hans lýtur, sérstaklega um veðgildi eigna, jarða og húsa — og manna. Starf hans mundi því verða lítils virði fyrstu árin. Tillaga minni hluta nefndarinnar er í raun og veru aðgengilegri. Um hitt, að þessir menn, er stjórnarráðið á að útnefna, geti orðið sjóðunum vilhallir í eftirliti sínu, er eg ekki svo hræddur við. Eg álít, að stjórnarráðið ætti að geta fundið handa hverjum einstökum sparisjóði einhvern mann í nágrenninu, sem trúandi væri fyrir þessu. Hann getur verið kunningi stjórnarinnar, en það er sama, ef hann er trúverðugur maður. Ekki get eg heldur verið hræddur við kostnaðinn, sem af þessu mundi leiða, í samanburði við hitt, að hafa fastlaunaðann mann, sem svo innan skamms mundi færa sig upp á skaftið að því er til launanna tekur.

En nú er að líta á það, hver nauðsyn er á lögum um þetta. Hæstv. ráðherra gat þess, að einstöku sparisjóðum væri svo háttað, að varhugavert gæti verið að eiga fé sitt í þeim. Eg skal ekkert um þetta segja, en mér þykir það ekkert ónáttúrlegt, að svo kunni að vera. Það hefir komið fyrir um banka, sem eru þó undir opinberu eftirliti. En enn sem komið er, munu þó vera mjög lítil brögð að þessu um sparisjóði hér á landi, og þó að eg sé þeim sjóðum ekki sérstaklega kunnugur yfirleitt, þá hefi eg þó heyrt þann orðróm, að þeir séu flestir vel tryggir, og fé innieigenda því óhætt. Og um stærsta sparisjóð landsins, sem er í Árnessýslu, veit eg nákvæmlega, því að eg er honum vel kunnugur. Hann hefir ekki tapað nema einum 18 kr. í öll þau 25 ár, sem hann hefir staðið. Það má líka benda á það, að flestir sparisjóðir hafa ábyrgðarmenn, sem ábyrgjast meiri og minni upphæð gagnvart innieigendum í sparisjóðnum, og þeim er auðvitað öllum mjög ant um það, að þeir þurfi ekkert að borga, svo að það er þeim aðhald til að líta eftir, og álit eg að þetta sé næg trygging í flestum tilfellum. Eg hefði í raun og veru álitið bezt að vísa þessu máli aftur til stjórnarinnar og að hún leitaði svo álita hlutaðeigandi sparisjóðsstjórna, endurskoðunar- og ábyrgðarmanna sjóðanna um málið, og við það mundi töluvert vinnast málinu til skýringar. Það ætti vei við, og eg vil jafnvel segja að það sé nokkurn veginn skilt að gera það. Eins og frumv er nú, álít eg það óaðgengilegt og hika ekki við að greiða atkvæði á móti því, nema það fái því meiri búningsbót til 3. umr.