02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í C-deild Alþingistíðinda. (1325)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Í 5. gr. laga 22. Október 1912, um ritsíma og talaimakerfi Íslands, er stjórninni heimilað, og þá jafnframt gert að skyldu, að láta framkvæma lagningu og kaup á símalínum þeim, sem taldar eru upp í 2. og 3 gr. laganna, og eigi eru þegar lagðar og keyptar af landssjóði hálfu, og að ráða því í samráði við landsímastjóra, í hvaða röð línur þessar skuli leggja eða kaupa. Svo er henni og í 6. gr. laganna heimilað að láta reisa loftskeytastöð, er hafi nægan kraft til sambands við útlönd, og til framkvæmda þess er henni loks í 8. grein laganna veitt heimild til lántöku á ábyrgð landssjóðs.

Stjórnin hefir því ekki gert annað en skyldu sina og það sem rétt var, er hún þegar hefir sætt tækífæri, er símaefni t.a.m. kopar, var í lágu verði, og keypt talsvert af efni til innar fyrirhuguðu símalinu, og það því fremur, sem lánsheimild var fyrir hendi, og stjórnin hefði getað verið búin að taka lánið, ef hún hefði viljað sæta þeim kjörum, er henni buðust akilyrðislaust. En þar sem hún á kost á láni, með kjörum sem verða að teljast mjög væg, eins og peningamarkaðinum er nú hagað, að því tilskildu, að ákvæðin í 2. og 3. gr. frumvarps, þess er hér liggur fyrir, verði lögleidd, hefir hún dregið lántökuna þangað til útséð er um það. Þetta hefir háttvirt efri deild séð og því fallist á stjórnarfrumvarpið. Þetta sá og meiri hluti nefndarinnar í neðri deild, og leggur því eindregið til að önnur og þriðja grein frumvarpsins verði samþykt. En hins vegar getur hún ekki fallist á 1. og 4. grein frumvarpsins, af ástæðum þeim sem háttvirtur framsögumaður tók fram.

Ef þessi háttvirta deild skyldi fella 2. og 3. grein frumvarpsins, yrði hún þess því valdandi, að stjórninni væri fyrirmunað að sæta vægum lánskjörum, sem hún á kost á, og neydd til að taka miklu dýrara lán, og myndi mismunurinn fyrir landssjóð geta orðið alt að 10.000 kr. á ári. En því get eg ekki trúað, að þessi háttv. deild vilji fara þannig að ráði sínu, og eg vona, að það verði ekki nema örfáir »búmenn«. En til þess að þjóðin fái að sjá, hverjir það eru, sem þannig vilja fara að, vil eg biðja hæstvirtan forseta að hafa nafnakall um 2. og 3. grein frum.