02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í C-deild Alþingistíðinda. (1326)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Bjarni Jónsson:

Mér kemur alveg eaman Við háttv. 1. þingm. N.-MúI. (Jóh. Jóh.), um að rétt sé að hafa nafnakall um 2. og 3. gr. frumvarpsins. Og það er af alveg sömu ástæðum, sem eg vil hafa nafnakall eins og hann. Eg vil að þjóðin fái að sjá, hvaða menn það eru í þessari háttvirtu deild, sem vilja veðsetja tekjur landssjóðs útlendu stórgróðafélagi, til þess að fá ofurlítið betri kjör og spara nokkrar krónur. Eg var ekki alveg viss um, að þetta væri hrein og bein veðsetning; þess vegna gerði eg fyrirspurnina til hæstv. ráðherra.

En eftir að hafa heyrt svar hans, er eg ekki í neinum vafa lengur um að hér er um veðsetningu að ræða og annað ekki.

Það verður ekki út skafið, að hér er um veðsetningu að ræða, og eg skil ekki, hvernig á því stendur, að menn eru svo skilningssljóir; þetta virðist þó vera augljóst mál.

Það liggur í augum uppi, að félagið trúir því ekki að ábyrgð landssjóðs ein sé næg trygging fyrir því, að lánið sé örugt. — Það fer því hér fram á, fyrir munn hæstvirts ráðherra, að því verði veðsettur hluti af tekjum landssjóðs til frekari tryggingar. Og þó að ekki sé beint getið um veðsetningu í frumvarpinu, þá þjá það allir, að þetta er alveg sama sem veðsetning. Eg er nú alveg farinn að skilja það, sem mér var ekki alveg full-ljóst áðan, og eg vona að öðrum háttvirtum deildarmönnum sé nú farið að skiljast, hvað hér sé um að ræða og ofbjóði ósvífnin.