02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í C-deild Alþingistíðinda. (1337)

88. mál, lögskipaðir endurskoðendur

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hefir í ræðu sinni talað fyrir allrar nefndarinnar hönd, því þótt hún skiftist í meiri og minni hluta, þá er ekki skoðanamunur nema í einu atriði. En það atriði verð eg raunar að leggja talsverða áherzlu á. Þegar eg bar fram þetta frumv., þá virtist mér það vera eitt af aðalatriðunum, að menn skyldu vera skyldugir til að nota þessa lögskipuðu endurskoðendur. Eg get ekki séð annað en mikil trygging sé einmitt í þessu atriði. Það útilokar hvern sem vera vill og ef til vill er mjög fús á að endurskoða hjá sér nákomnu félagi. Óprúttin gróðabrallsfélög gætu notað sér það að láta sér holla menn endurskoða reikningana, ef þessi skylda hvíldi ekki á þeim. Þetta viljum við minni hlutinn koma í veg fyrir og því leggjum við áherzlu á, að viðaukatillaga okkar verði Samþykt líka. Meira virðist mér óþarfi að taka fram. Að eins skal eg geta þess, að breyt.till. nefndarinnar eru allar orðabreytingar, Sem eru framkomnar fyrir tilmæli hæstv. ráðherra, sem ekki þótti upprunalega frumvarpið nógu greinilegt. Nefndin félst á athugasemdir hans og ber því fram þessar breyt.till.

Skal eg svo ekki fjölyrða um þetta. Eg vona að allar tillögur nefndarinnar og svo viðaukatillaga okkar nái fram að ganga.