02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í C-deild Alþingistíðinda. (1339)

88. mál, lögskipaðir endurskoðendur

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg býst við að mönnum sé nú orðinn ljós munurinn á skoðunum meiri og minni hlutans.

Viðvíkjandi því sem háttv. þm. sagði um, að eg hefði ætlast til að landinu yrði upprunalega skift í 4 umdæmi, þá skal eg geta þess, að mér hefir aldrei dottið slíkt í hug. Eg ætlaði stjórninni að sjá um að skifta héruðunum og treysti henni til að hafa næga þekkingu á því, hve margra sé þörf, og sjá svo um, að engum verði ofraun að ná í endurskoðendur.

Til þess að draga úr því sem eg sagði um óreiðufélög, sagði háttv. þm., að þeir sem lánuðu slíkum félögum fé, mundu sjálfir sjá um, að endurskoðunin væri trygg. Það er mikið rétt. En eg átti alla ekki við þá sem lánuðu slíkum félögum fé, heldur hina, sem gintir væru til hlutakaupa í slíkum félögum með skökkum reikningum, er stöfuðu af lélegri eða visvítandi rangri endurskoðun. Eg vil með því að gera þetta að skyldu, tryggja það, að slíkt komi ekki fyrir.

Þá skal eg geta þess, sem mér láðist að minnast á áðan, að brtill. minni hl. Við 7. gr. er ákvæði, sem ekki stendur annarstaðar í frumv. eða nefndaráliti meiri hlutans. Það lýtur að því, að þessir endurskoðendur megi ekki vera embættismenn, sýslunarmenn o.s.frv. eða launaðir af annara fé. Svo er því einnig fyrir komið í öllum þeim löndum, sem við höfum náð til að athuga.

Þar sem meiri hlutinn leggst ekki fast á móti viðaukatill., sé eg ekki ástæðu til að tala frekara, en vona að bæði meiri og minni hluta tillögurnar verði samþyktar.