03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í C-deild Alþingistíðinda. (1354)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Pétur Jónsson:

Eg held að menn hér gái ekki að því, þegar þeir eru að ræða um þetta frumvarp, að hér er að eina um örlítið svæði að ræða. Menn tala hér eins og verið sé að hugsa um að hefta einhvern stóreflis útveg þeirra manna, sem stunda herpinótaveiði, og eins og þeir geti hvergi rekið þessa veiði nema á þessum litla polli, fyrir innan Hrísey á Eyjafirði. Þetta er að eins lítið svæði af öllu því svæði fyrir norðan land sem má veiða með herpinót. Auk þess vildi eg benda á að menn hafa ekki sérstaklega botnvörpuskip til þess að veiða síld fyrir innan Hrísey. Eg hugsa að ef hv. þm. færu að gera sig út þangað með botnvörpuskip til slíkra veiða að Eyfirðingar myndu hlægja drjúgan að þeim. Eg held að Eyfirðingar hafi betra vit á síldarveiði en flestir háttv. þm. hér. Og ef það væri hættulegt ákvæði að banna herpinótaveiði, þá mundu Eyfirðingar ekki hafa svona mikinn áhuga á því að fá því framgengt, eins og þeir hafa sýnt, þar sem þeir sjálfir geta veitt síld með herpinótum á mótorbátum.

Háttv. þm. Dal. (B.J.) sagði að orð fiskifræðingsins myndu ekki vera rétt hermd. Hann sagði líka á þá leið, að skaðinn af herpinótaveiðinni fyrir Eyfirðinga hlyti að gefa tilsvarandi hagnað fyrir herpinótaeigendur, og þetta taldi hann nóg og réttmætt. En þetta er ekki rétt, þótt akaði og ábati féllist hér í faðma. Það er ekki rétt eða heppilegt, að aðvífandi menn geti komið og hrifsað til sín þá atvinnu, sem um langan tíma hefir verið bjargræðisvegur fyrir heil bygðarlög.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) sagði að það væri engin vissa fengin fyrir því, að herpinótaveiðin væri til skaða þeim sem búa við Eyjafjörð og þessi lög yrðu engum til bóta.

Eg er viss um það, að háttv. þm. er þessu máli ekki svo kunnugur, að hann geti neitt fullyrt um það. Það sem hann hefir um það að segja, getur ekki stuðst við næga þekkingu og er því ekki annað en órökstudd staðhæfing.

Háttv. þm. hélt því fram að þeir, sem væru þessu máli fylgjandi, ættu að leiða sannanir að, að hvaða gagni þau kæmu. Eg hugsa að þeim sé það ekkert nær að koma með sannanir fyrir sínu máli, heldur en hinum, að koma með sannanir fyrir því gagnstæða. Sönnunin á einmitt að koma fram með reynslunni. Tilgangur þessarar fyrirhuguðu samþyktar er að prófa þetta í 5 ár.