03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í C-deild Alþingistíðinda. (1356)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Lárus H. Bjarnason:

Eg ætla að byrja á því að lýsa því yfir, að það er alveg óþolandi að maður fái ekki dagskrána fyr en 11/2 klukkutíma áður en maður kemur á fund, og er það því ómögulegra, sem fleiri mál eru á dagskrá. Vildi eg því leyfa mér að æskja þess af hæstv. forseta, að hann lagfæri þetta.

Annars stóð eg upp til að gera grein fyrir atkv. mínu; eg léði frumv. atkv. mitt eina og það fór út héðan úr deildinni til hv. Ed. Það gerði eg vegna þess, að eg hafði heyrt það haft eftir botnvörpuskipstjórum, að það myndi gera þeim litið mein. Síðan hefi eg sjálfur talað við hlutaðeigendur, og fullyrða þeir að frumv., jafnvel eins og frá því hafði verið gengið hér áður, sé til allmikils baga botnvörpuskipum héðan úr Reykjavík, og þá auðvitað öðrum líka. Sérstaklega kveður þó mikið að þessu eftir þær breytingar, sem hv. Ed. hefir gert á frumv., að því er þessir menn segja. Eg verð að trúa þeim til þess að fara rétt með þetta, en hins vegar hefi eg engan heyrt leggja mikið upp úr hagsmunum þeim, er héraðsbúar þar nyrðra myndu hafa af frumvarpinu, enda hefi eg heyrt mann, sem öðrum fremur er til þess kjörinn að gæta hagsmuna þeirra, segja, að þetta væri nánast fyrir einn hrepp. Eg hefi heyrt þulda langa romsu af skipum héðan, sem öll hafa að meira eða minna leyti bækistöð sína á Akureyri, og mér er sagt að þau myndu verða að hætta við veiðar þar, ef þetta frumv. yrði samþykt. Eg er sérstaklega mótfallinn breytingum hv. Ed. á frumv., og þar sem ekki gefst kostur á að greiða atkv. um þær sérstaklega, þá mun eg greiða atkvæði á móti frumvarpinu, enda nú upplýst sem sagt, að frumvarpið hafi þegar frá upphafi fremur verið kjördæmi mínu til baga.