03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í C-deild Alþingistíðinda. (1364)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Guðmundur Eggerz:

Eg hefi áður stutt þetta mál, en þá var að eins að ræða um samþyktarheimild fyrir nokkurn hluta Eyjafjarðar. Mér féll illa viðauki Ed. við frumv., og eg skrifaði með fyrirvara undir framhaldsnefndarálitið fyrir þá sök, að eg var þá ekki búinn að afla mér upplýsinga um, hvort hættulegt væri að láta samþyktarheimildina ná til Skagafjarðar.

Nú segja skipstjórar mér, að síldveiðaskipin fiski örsjaldan eða aldrei fyrir innan línu, þá sem frumvarpið gerir ráð fyrir að samþyktin nái til, og mun eg því greiða frumv. atkvæði mitt þrátt fyrir breytingu þá er háttv. efri deild hefir gert við það.