09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (137)

21. mál, íslenskur sérfáni

Bjarni Jónsson:

Hæstv. ráðherra lét í ljósi, að löggilding fánans lægi fyrir utan verksvið þingsins. Leiði eg hjá mér að svara því, þar eð háttv. þm. N: Ísf. (Sk. Th.) hefir svarað því að fullu; sýndi hann fram á, að jafnvel Danir hafa lagt þann skilning í málið, þá því fremur ættum við að gera það, sem rétt rök viljum.

Það hefir verið minst á gerð fánans og vil eg leyfa mér í fám orðum, að benda á, hversu varhugavert það er, að fara nú að breyta til. Fyrir þrem árum var hann samþyktur á 30 þingmálafundum og síðan hefir bæði gerðinni og litnum vagið fylgi.

Menn eru nú farnir að unna þessum fána, sýndi það sig bezt þann 12. Júní, þegar jafnvel mótstöðumenn hans urðu svo reiðir, að þeir eigi vilja sjá þann dag, er hann verði slíku ofbeldi beittur oftar.

Eg vil benda mönnum á, hversu hættulegt það er, að vera að rugla menn og villa í þessu máli, eins og nú er komið. Þó einstaka menn hafi haldið því fram, að þetta væri Krítar fáni, þá nær það engri átt, enda er Krít nú komin undir yfirráð Grikklands. Þótt grískir herfánar kunni að vera svipaðir, kemur það ekki málinu við, þar sem þetta er siglingafáni.

Þá kem eg að hv. þm. Ak. (M. gr.), sem var svo vænn að segja mér álit sitt á sjálfum mér.

Okkar á milli sagt, hefi eg aldrei lagt ilt til hans, og aldrei brugðið honum um hroka eða gorgeir, en eg vil minna hann á máltækið: kallaðu á haustið og það kemur. Við erum hittir, en ekki skildir, og þó að eg sé ekki mikill fyrir mér, mun samt hv. þm. Ak. ekki veita af að hafa munninn fyrir neðan nefið, ef hann vill etja kappi við mig.

Sami þingmaður hélt því fram, að Íslendingar mundu verða taldir afglapar í stjórnmálum, ef þeir samþyktu fánamálið.

Norðmenn gáfu út lög um fána og urðu að þola, að hann væri hvað eftir annað tekinn af þeim og þeir sektaðir fyrir að nota hann. Þeir óttuðust ekki að þeir yrðu kallaðir pólitískir afglapar, þótt þeir rynnu ekki frá öllum sínum kröfum við fyrsta mótbyr.

Það sem háttv. flutnm. (L. H. B.) tók fram gagnvart hv. þm. Ak. var hárrétt. Sú tillaga, sem samþykt var á Akureyri og hér var lesin upp, felur í sér það sama og breytingartillögur okkar. Ef háttv. þm. veit ekki, hvað við er átt með þjóðernisfána, get eg vísað honum á bók, þar sem hægt er að sjá glöggar og skýrar upplýsingar um það atriði. Ef hann sér það svart á hvítu, þarf hann ekki að halda að það sé alt gorgeir og mont úr mér. Hann getur flett upp bls. 106 í Das Völkerrecht eftir háskólakennara Franz von Liszt, og ef hann vill fá fyllri upplýsingar, getur hann flett upp á bls. 200 í sömu bók. Þar getur hann séð að verzlunar- eða siglinga-fáni er sérstaklega þjóðernistákn. Þess vegna er sjálfsagt fyrir hann, ef hann vill vera í samræmi við kjósendur sína, að fallast á breytingartillögur okkar og greiða þeim atkvæði.

Þó að hv. þingmaður sé svo hugaður, að hann hræðist ekki kjósendur sína og að því kann honum að verða mikill sómi — er mér þó nær að halda, að hann hafi gert þetta af brjóstgæðum. Hann hefir viljað sanna, að til væri þó maður, sem mér væri lakari. Og ef svo er, þakka eg honum fyrir brjóstgæðin.

Eg get ekki látið vera að minnast á það, sem háttv. flutningsm. talaði til mín. Hann sagði að þetta mál mundi horfa öðruvís við, ef eg hefði vitað, hvað “suverenítas„ var árið 1908. Eg þori ekki að meta mig til jafna við háskólakennara í lögfræði og þess vegna vil eg bera fyrir mig orð annars háskólakennara í sömu grein. Bók sú eftir hann, er eg vitna til, er reyndar skrifuð 1911, en eg býst þó ekki við, að hann hafi hagað sér á; nokkurn hátt eftir skoðunum mínum 1908. Hann telur heyra undir suverenítas: jus legationis, jus foederum et tractatuum og jus belli et pacis. En mér er spurn, hvar er hægt að finna nokkurn snefil af þessu í frumv. millilandanefndarinnar 1908 ?

Annars vil eg geyma kappræður við háttv. flutningsm. um þetta mál þangað til síðar, ekki þangað til í nefndinni, því að eg býst ekki við að hafa þá ánægju, að sitja þar með honum. En einhverntíma mun gefast tækifæri til, að víkja að þessu nánara. Eg vil einungis taka það fram, að eg þekki vel og skildi rétt 1908, hvað “suverenítas„ merkir. Það veit eg að háttv. flutnm. hefir líka gert, en hvort hann hefir farið eftir því, sem hann vissi réttast, — það veit eg ekki.

Áður en eg sezt niður, vil eg taka það fram aftur, að ef farið verður að lögleiða sérfána, staðarfána eða heimafána, eða hvað það er kallað, þá verð eg að skoða það háðung fyrir land og þjóð. Það yrði einungis til að sýna, að við getum ekki haft fána sem táknar fullveldi okkar. — En þann fána vil eg hafa og engan annan. Það er háðung, að setja það í íslenzk lög, að danskan fána skuli hafa á hverri íslenzkri fleytu, hvar um höf sem hún fer, og að hvaða landi sem hana ber, til þess að sýna að við teljum okkur danska þjóð. Og þá er ástæðulaust, að hafa hér heima fána með Þórshamri eða hvítum krossi í bláum feldi. Til þess þurfum við heldur engin lög.

Það var rétt hjá háttv. þingm. Ak., enda hefir háttv. flutningsm. sannað rækilega, að engin lög eru því til fyrirstöðu.