03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í C-deild Alþingistíðinda. (1377)

105. mál, jarðirnir Bústaðir og Skildingarnes lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Lárus H. Bjarnason:

Þó að hv. framsögum. meiri hlutans hafi svarað mótmælum háttv. framsögum. minni hl. nægilega, þá ætla eg samt að bæta við örfáum orðum. Það er að vísu satt, að komið hafa mótmæli úr þrem áttum og meðal mótmælendanna eru meira að segja mér nákomnir menn. En eg held samt, að mótmælendurnir séu í rauninni að eina 2, því það er vitanlegt, að þó sýslunefndin mótmæli þessu að nafninu, gerir hún það aðallega, ef ekki að eins, fyrir hreppsnefnd Seltirninga. Eins og háttv. framsögum. sagði, var þetta frumv. í rauninni fyrir Alþingi 1893, þó að undanskilja yrði þá Bústaði og Skildinganes til samkomulags. Það er sömuleiðis rétt, sem háttv. framsögum. sagði, að í ráði er, þegar núverandi ábúandi á Bústöðum, sem nú er orðin sjötugur, lætur af búskap, að bærinn leggi alt Bústaðaland undir sig, að undanskildu túninu; og hefir þá Seltjarnarnesheppur engar tekjur af jörðinni. Getur því ekkert verið á móti að leggja að minsta kosti Bústaði undir bæinn. Það stendur eins á um Bústaði og Skildinganes nú, eins og Klepp og Lauganes áður, er þær jarðir voru lagðar undir Reykjavík gegn beinum mótmælum hreppsnefndar og sýslunefndar. En þó er sá mismunur, að þá var að eins hreppnum bættur skaðinn. Nú er það nýmæli tekið upp í frumv., að ekki eingöngu hreppnum sé bættur skaðinn, heldur einnig sýslusjóði. Þetta atriði hefi eg ekki heyrt nefnt, en það er þó mjög mikilsvert, því að sýslunefndin hefir áður sett aðallega það fyrir sig að sýslusjóður var engu bættur. Eg get ekki séð, að Seltjarnarneshreppi sé neinn missir að Skildinganesi, því þar er ekki nema einn búandi og framlag hans til hreppsins verður hreppnum bætt og meira en það. Og eftir því, sem eg veit bezt, eru þær vonir, sem menn hafa gert sér um stórborg þar, Port Reykjavík, að engu orðnar, því gjald það sem félagið átti að hafa borgað 1. júlí, hefir eigi verið borgað enn í dag.

Skaðabæturnar á að miða við það sem er, en ekki við það sem menn vona að verði, sérstaklega þegar um svona óábyggilega von er að ræða. Get eg ekki séð annað, en að það sé í rauninni sjálfsagður hlutur fyrir Alþingi, að meta meira hagsmuni Reykjavíkur, en það sem hefir verið fært fram af andstæðingum frumv. sem hagsmunir hrepps og sýslu. Þar að auk hlýtur landssjóði að vera ant um hag Reykjavíkur, ekki sízt eftir að ið mikla mannvirki er komið í kring, sem nú er verið að byrja. Verð eg því hiklaust að greiða atkvæði með frumv. og með öðrum til að gera slíkt ið sama.