03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í C-deild Alþingistíðinda. (1378)

105. mál, jarðirnir Bústaðir og Skildingarnes lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Jón Ólafsson:

Herra forseti ! Þótt eg sé Reykvíkingur get eg samt ekki greitt þessu frumv. atkvæði mitt. Er eg háttv. minni hlutanum samdóma að öllu leyti. Mér finst þessi beiðni bæjarstjórnarinnar vera bygð á ósanngirni. Skal eg geta þess, að fyrir fáum árum var Reykjavík boðið þetta land til kaups fyrir lítið verð, en þá vildi bærinn ekki kaupa það. Það er fyrst nú, þegar á að fara að reisa þarna stórvirki, sem vitanlega verður til stórgróða fyrir hreppinn, sem bænum er orðið þetta svo mikið kappsmál. Á sama hátt má búast við, að ef farið væri að reisa eitthvert stórvirki á einhverjum bæ úti á Nesi, mundi Reykjavík undir eins reyna sölsa það land undir sig. Hér er ekki um annað að ræða, en ágirnd bæjarstjórnarinnar.

Væntanlega ætlar Reykjavík ekki að banna þetta fyrirtæki úr því þegar er byrjað á því enda getur það aldrei orðið bænum hættulegur keppinautur. T.d. Hafnarfjörður gæti orðið langtum hættulegri. Mætti búast við að Reykjavík vildi innlima hann í sitt lögsagnarumdæmi. Það er ósanngjarnt að segja, að bæturnar verði að eins að miða við það sem er, þegar fyrirsjáanlegt er að miklar breytingar verða á næstu árum.

Um Klepp og Laugarnes stóð alt öðru vís á, svo að ekki er hægt að koma með neinn samanburð þar í milli.

Eg álít að tíminn sé nægur til að koma þessu í kring og að það megi gjarnan bíða næsta þings. Er eg sannfærður um að þá líta skaðbæturnar öðru vís út en nú. Og þá á það að verða með fullu samkomulagi beggja aðilja — en ekki ganga fram hjá Seljarnesshreppi.