03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í C-deild Alþingistíðinda. (1392)

95. mál, málskostnaður

Jón Magnússon:

Það sem háttv. 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.) sagði síðast, á sér ekki stað nema stundum. Það er oft að hvorugur málsaðili er viss um að vinna mál. Og eg segi fyrir mig, að eg er oft í efa um, hvernig dæma skuli bæði um réttarspursmál og sönnunargögn. Þegar nú er álitið, að sá sem tapar málinu hafi haft ástæðu til þess frá sínu sjónarmiði að fara í málið, þá er það venja eins og nú er, að málskostnaður falli niður. Þetta frumv. er bygt á alt öðrum grundvelli — áhættugrundvellinum. Sá sem tapar málinu borgar líka málskostnaðinn. (Jón Ólafsson: Sá borgar brúsann, sem brýtur hann). Nei, sá sem verður undir. En ef gengið er inn á þennan grundvöll, þá er það rangt að láta ekki jafnt ganga yfir báða málsaðilja; það væri jafnvel ástæða til þess að láta þetta ráða meira fyrir stefnda en stefnanda.

Eg hygg, að réttast væri að samþykkja ekki þetta frumvarp nú, hvað sem menn kynnu um það að álíta í sjálfu sér; það er eins og til þess að setja nýja og ólíka bót á gamalt fat.