03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í C-deild Alþingistíðinda. (1401)

93. mál, hallærisvarnir

Framsögum. (Ólafur Briem):

Það verður að vísu ekki sagt hið sama um þetta frumvarp eins og um frumvarp það, sem var hér til umræðu næst á undan, um forðagæzlu, að nefndin hafi verið sammála, þar sem einn nefndarmaður hefir skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara og komið fram með brt. Meiri hlutinn áleit samt sem áður að frumvarpið væri þess vert að því væri allur sómi sýndur og greitt fyrir því gegn um þingið. Vitaskuld er þetta mál nýstárlegt í því formi, sem það kemur fram nú, en grundvöllur þess er alla ekki nýstárlegur, því að hann hefir verið alment umhugsunarefni landamanna alt frá því er þetta land bygðist og hafa þeir oft verið mintir á að íhuga þetta mál, og það ekki á sem vægilegastan hátt stundum, eins og uppdrátturinn, sem hangir hérna frammi á lestrarsalnum, ber ljóslega með sér.

Það sem helzt hefir valdið hallærum hér á landi, er fyrst og fremst hafísinn með sinum afleiðingum, þá eldgos og öskufall, og svo drepsóttir. Eitt af þessu er nú úr sögunni, það er að segja drepsóttirnar, sem hafa verið mjög átakanleg plága fyrir þetta land. Það er nú svo komið, að við þurfum naumast að óttast slíka plágu, og er það að þakka bættri læknaskipun og breyttum lifnaðarháttum. En enn þá eru hinar plágurnar, sem geta að borið, þegar minst vonum varir, og haft mjög skaðlegar afleiðingar. Eg skal ekki fara langt út í það mál, um það urðu talsverðar umræður í Ed., og ætla eg ekki að neinu leyti að bæta um þær. Eg vil að eins minna á það, að þótt segja megi að menn séu að ýmsu leyti betur búnir gegn afleiðingunum af ísi og eldgosum, þá eru menn að öðru leyti ver við slíku búnir, þar sem menn eru nú orðnir viðkvæmari og gera meiri kröfur til lífsins, eftir því sem framfarirnar hafa aukist og aðbúnaður allur orðið betri. þegar menn eiga til langframa við eitthvað ilt að búa, verða menn ekki eins næmir fyrir þó á móti blási. Eg vil segja, að ef nú kæmi einhver plága í líkingu við þær sem áður hafa komið, þá myndi hún hafa miklu víðtækari afleiðingar, einmitt fyrir þetta, að menn þola minna.

Með þessu frumv. er farið fram á það, eftir því orðalagi, sem er í 1. gr. þess, að stofna sjóð til hjálpar í hallæri. Nefndinni þótti þetta ekki nógu skýrt orðað og jafnvel ekki nógu víðtækt. Þessi sjóður ætti ekki einungís að vera til að bæta skaða, sem hlýzt af hallæri, heldur aðallega tryggingarsjóður til að afstýra því. Þess vegna hefir nefndin leyft sér að koma með brtill. við 1. gr. þess efnis, að á eftir orðunum: »til hjálpar í hallæri«, komi: »eða til að afstýra því«. Það er einmitt aðalkjarninn í frumv., að þessi sjóður eigi að vera tryggingarsjóður. Ef spurt væri, hver sé sú mesta breyting eða hvað sé það einkennilegasta í þjóðfélagsskipun vorra tíma í samanburði Við skipulag fyrri alda, og ef því ætti að svara með einu orði, þá hygg eg að það yrði orðið »samvinna«. Ein tegund þessarar samvinnu er einmitt tryggingarsjóðirnir. Þeir eru sú tegund sam v innu, sem hefir látið mjög mikið til sín taka í löggjöf og menningarskipan annara þjóða. Og við hér á hafa veraldar erum ekki alveg ósnortnir af þeirri hreyfingu. Sérstaklega eru það þó persónulegar tryggingar, sem við höfum af að segja. Embættismenn eru skyldir til að tryggja sér og ekkjum sínum ellistyrk og lífeyri, og í seinni tíð hafa verið stofnaðir ýmsir styrktarsjóðir, svo sem styrktarsjóður barnakennara, líftrygging sjómanna, ellistyrktarsjóður og sjúkrasamlög. Alt eru þetta tryggingarsjóðir, sem byggjast á því, að áhættan dreifist á fleiri hendur og lengri tíma. Þetta, sem eg nefndi, eru alt persónutryggingar, en svo höfum við líka eignatryggingar, svo sem vátrygging sveitabæja og samábyrgð fyrir fiskiskip, og það hafa verið gerðar tilraunir til að koma á frekari eignatryggingum þó að þær hafi ekki borið ávöxt. Þetta er eitt af aðaleinkennum seinni tíma. En eg get ekki stilt mig um að minna á það, að þótt við séum skamt komnir á þessari leið, og förum mest eftir útlendum fyrirmyndum, þá þurfum við ekki svo langt að fara, og getum haft fyrirdæmið frá forfeðrum okkar, því að í okkar elztu lögum eru til ákvæði um þessa hluti, bæði eignatrygging á húsum og eignatrygging á skepnum. Í Grágás er bein skipun um það, að ef þrjú helztu húsin, baðstofa, búr og eldhús eða skáli, brenna á einum bæ, þá séu allir hreppabúar skyldir að taka þátt í skaðanum að helmingi. Og sama gilti um það ef drepsótt kom upp í skepnum, aðallega nautpeningi, þá voru hreppsbúar skyldir til að taka þátt í skaðanum. Vitaskuld var félagsskipun á þeirri tíð ekki komin svo langt, að þessi trygging gæti stuðst við þær tvær grundvallarreglur, sem tryggingarsjóðir vorra tíma styðjast við, ekki einungis að áhættan dreifist á fleiri hendur, heldur einnig á lengri tíma, þannig, að ekki þurfi að koma til niðurjöfnun á skaðabótum í hvert skifti, en þar á móti sé stofnað til ábyrgðarsjóðs með föstu árgjaldi og að ef ekki þarf til sjóðsins að tala fleiri ár í röð, þá vaxi hann og sé þess öflugri þegar á þarf að halda.

Það er varla hægt annað en furða sig stórkostlega á því, að áminst samábyrgðarlög skyldu vera til hér á landi á þessum tíma, þjóðveldistimanum, þegar ekki er til nokkur vottar þess, að slíkt hafi verið til annarstaðar ! Norðurlöndum og þó víðar sé leitað. Það er furðulegt, að íslendingar skyldu á þeim tíma standa framar öðrum þjóðum að þessu leyti. Og það er átakalegt, þegar það er borið saman við nútímann, þá stóðum við öllum þjóðum framar, en nú stöndum við öllum öðrum þjóðum að baki í þessu efni. Það er ekki gott að gera sér grein fyrir, hvaðan forfeður vorir hafa haft þetta mikla mannvit, þetta mikla félagslyndi og sjálfsafneitun, sem lýsir sér í þessu, og það því síður, þegar litið er til þess, að það var grundvallarregla þeirra tíma, að vera ekki upp á aðra kominn, og að hver væri sjálfum sér nógur. Samt sem áður hafa þeir séð að þetta var þjóðarnauðsyn.

Ágreiningurinn í nefndinni var eingöngu um það, hvurt það ætti að vera skyldukvöð að taka þátt í þessum tryggingarsjóð. Þó þeir hlutar á landinu séu til, sem meiri þörf hefði fyrir hallærissjóð en aðrir, þá er þó ekki hægt að segja annað en að áföll geti alstaðar komið fyrir um alt land. Og þess vegna vill meiri hluti nefndarinnar að það sé bundið fastmælum í frv., að þessi skyldukvöð hvíli á mönnum um alt land. Meiri hlutinn heldur líka þessu fram af því, að hann álitur að ekki megi treysta því að menn, sem þessu eru hlyntir, hafi svo mikinn áhuga á því að nokkuð verði úr framkvæmdum, ef alt á að vera komið undir frjálsum samtökum. Meiri hlutanum finst líka svo hóglega farið í sakirnar þar sem í frumv. er farið fram á að karlmaður, sem kominn er yfir tvítugt, borgi 1 kr. og kvenmaður 60 aura, auk þessa tillags úr landssjóði, sem nemi 40 aurum á hvern gjaldskyldan mann. Jafnframt þessu er svo fyrir mælt í frumv., að sveitarstjórnirnar ráði því, hvernig gjöldunum skuli fyrir komið, og þyki sveitarstjórn óráðlegt að heimta gjaldið sem nefskatt af öllum, þá skuli vera heimilt að jafna því niður á menn eftir efnum og ástæðum eða greiða það úr sveitarsjóði. Meiri hlutinn lagði mikla áherzlu á það samræmisins vegna, að þessi skyldukvöð skyldi hvíla á mönnum um land alt, en það getur aftur komið síðar til nánari athugunar, hvernig haganlegast gé að verja fé sjóðsins einstökum héruðum til hagsmuna og þá einkanlega að því er snertir þau hér að, sem til langframa ekki þurfa á neinni hallærishjálp að halda. Allar ákvarðanir um það, hvernig verja megi sjóðnum eða tekjum hana, þurfi ekki að taka til hans fleiri ár í röð, má geyma til seinni tíma.

Af þessum ástæðum var það, að þótt meiri hlutinn meti mikils álit minni hl. háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) og brtill. hans á þgskj. 376, þá gat hann þó ekki fallist á þær, vegna þess að hann áleit að þær myndu koma málinu í ógöngur, ef þær gengju fram.

Hvað snertir brtill. nefndarinnar á þgskj. 625, þá eru þær að mestu leyti orðabreytingar, nema ef vera skyldi brtill. undir tölulið 3, við 1. gr., að á eftir orðunum »til hjálpar í hallæri« bætist inn í orðin eða til að afstýra því.

Aðrar breytingatillögurnar á þgskj. 625 eru að mestu leyti orðabreytingar, eða til þess að skýra tilgang frumvarpsins.

Eg skal svo ekki tala frekara um þetta að sinni.