03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í C-deild Alþingistíðinda. (1403)

93. mál, hallærisvarnir

Kristinn Daníelsson:

Eg var einn í nefndinni, sem háttv. Nd. fól á hendur að athuga þetta mál og hefi eg síðan starfað í nefndinni með hinum nefndarmönnunum og má segja, að það hafi verið með góðu samkomulagi. En þó hefi eg nú skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Vil eg nú leyfa mér að gera nokkra grein fyrir því; hvers vegna eg skrifaði undir nefndarálitið og hvers vegna eg skrifaði undir það með fyrirvara.

Undirskrift mín undir nefndarálitið þýðir það, að eg var samdóma hinum nefndarmönnunum um þær smábreytingar á forminu, sem þeir lögðu til að gerðar yrðu á frumvarpinu. Auk þess sem eg var þeim samdóma um tilgang frumvarpsins og margt af því sem hv. framaögum. hefir tekið fram.

En fyrirvarinn þýðir það, að eg áskildi mér rétt til þess að koma fram með breyt.till., sem eg nú vildi leyfa mér að mæla með nokkur orð. Breyt.till. mínar eru á þgskj. 675 og stafa þær af því, að eg get með engu móti verið frv. samþykkur í þessu formi. Eg játa frumvarpsins góðu hugsun og góða tilgang, og eg játa möguleikann á því að kynni að þurfa að taka til sjóðsina, þó hallæri yrðu hér ekki í sama mæli og áður. Að því leyti get eg ekki tekið undir ummæli háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), sem taldi það allsendis óhugsandi að hallæri geti komið.

Háttv. framsögum. tók það fram, að þetta mál hefði verið rætt all-ítarlega í Ed. Eg var þar viðstaddur við umræður um málið og voru það vist margir aðrir háttv. þm. héðan úr deildinni. Heyrðu menn þar góð rök bæði með málinu og móti. Og eg verð að játa það, að mér fanst málið betur sótt af þeim sem voru með frv., en hinum; fanst mér þeir sem voru á móti því, eiga fremur í vök að verjast en hinir. En eg skal nú ekki lengur lengja umræðurnar með því að vera að fara út í þær röksemdaleiðslur. En eg verð að segja það, að eg get ekki fallist á að leggja slíkt nýtt persónugjald á þjóðina á líkan hátt og háttv. Ed. leggur til. Það er búið að leggja nógu marga nefskatta á þjóðina, þó þeim verði nú ekki fjölgað. Reikni maður út, hvað fátæk hjón yrðu að borga í persónugjald ef þetta gjald bættist Við almennu gjöldin, þá er það fyrst:

Kirkjugjald og prestagjald kr. 4,50 Ellistyrktarsjóðsgjald — 2,25 Og svo þetta nýja. gjald — 1,60

Eða samtala kr. 8,35 Bláfátæk hjón yrðu þá að minsta kosti að borga 8 kr. 35 aura, eða, ef kirkjugjöldin yrðu hækkuð úr því sem nú er, sem svo oft á sér stað, þá yrðu það kringum 9 kr. Sömuleiðis er það mjög mikið, sem altaf er verið að bæta við gjöldin í sveitasjóðina. Veit eg að sveitarbyrðarnar eru víða æði þungar og örðugt að rísa undir þeim, þó ekki væri þessu gjaldi bætt við. Veit eg að svo er í aumum sjóplássunum á Suðurlandi, að erfitt er að rísa undir byrðunum, ef eitthvað ábátar.

En til þess nú ekki að fella frumvarpið, þá vil eg fara miðlunarveginn og hefi því komið fram með breyt.till. á þgskj. 676. Þær fara fram á það, að að eins landssjóðstillagið verði lögboðið; um héraðstillögin, skuli héraðsstjórnunum það vera í sjálfsvald sett, hve mikið það skuli vera. Þetta er aðalefnið í breyt.till. mínum.

Með þessu móti, að héraðastjórnunum er það í sjálfavald sett, hve mikið tillag héraðið skuli greiða í sjóðinn, þá á það að koma í ljós, hvort menn vildu leggja nokkuð til þessa sjóðs, og eins það, hvar þörfin sé talin mest, því eins og háttv. framaögum. tók fram, er í inum ýmsu hlutum landsins mjög misjafnt útlit fyrir að að hallæri komi, þó eg neiti því ekki að það geti komið alstaðar, um alt land.

En þó nú þetta sé þannig ákveðið fyrst um sinn til þess að leiða í ljós Vilja almennings í þessu, þá er þó alls ekki loku fyrir það skotið, að því megi breyta síðar. Það mætti t. d. hafa það þannig, að þetta fyrirkomulag, að héruðunum væri í sjálfavald sett, hvort eða hve mikið þau vildu gjalda til sjóðsins, atæði fyrst núna í nokkur ár; og svo væri héruðunum gert það að skyldu. Vil eg benda til skólanna. Fyrst þegar þeir voru stofnaðir, var mönnum það í sjálfsvald sett, hvort þeir vildu láta börn fara í þá, en síðan var mönnum gert það að skyldu. Svona var farið með að koma skólunum á fót og eins mætti fara í þessu efni. Þetta gæti líka orðið til þess að miðla málum milli beggja málsaðila. Eg hygg að mönnum í mörgum tilfellum þyki þetta vera nauðsynjamál, bæði hér og í héruðum landsins. Og hve fúsir menn yrðu á að fylgja því, mundi þá geta komið í ljós með breyt.till. mínum. Sýslunefndirnar myndu fúslega samþykkja þetta gjald, væri almenningur yfirleitt fús á það, en þær myndu aftur gera það mjög nauðugar ef þær vissu að almenningur væri því mótfallinn.

Vil eg svo ekki lengja umr. meira um þetta. Eg þarf ekki að útlista brt. mínar á þgskj. 676. Þær eru eins og þær liggja fyrir.

1. gr. er að eins vikið við til þess að hún geti verið í samræmi við efnið í breyt.till. mínum.

2. og 3. gr. segja, hvernig sjóðurinn skuli stofnast, sem er ekki ógreinilegt í frumv. Í 3. gr. er sýslu- og bæjarfélögum það í sjálfsvald sett, hvort þau vilji gjalda þetta gjald til sjóðsins. Ætti það ekki að vera til fyrirstöðu fyrir stofnun sjóðsins, þó þau héruð legðu ekki neitt fram til hana, sem ekki yrðu hans aðnjótandi í neinu.

Í 2. grein er ráðið til þess, að miða gjaldið úr landsjóði ekki við aldurstakmark manna, heldur við það, að menn séu gjaldskyldir til ellistyrktarsjóðs. Finst mér vera hagur í því, að miða það við ellistyrktarsjóðsgjaldið, því um það eru alt af til skýrslur, sem ekki eru alls staðar til, um aldur manna.

3. brtill. fer fram á það, að 14. gr. frumv. falli burtu, og er það af því, að fyrsti liður 14. gr. inniheldur ákvæði, sem ekki eru tiltækileg samkv. þessari stefnu, sem brtill. minar fara í, og annar liðurinn er óþarfur, ef brtill. verða samþyktar.

Þá er 4. brtill. við 15. gr. að eins orðabreyting, sem eðlilega leiðir af hinum breytingunum, að í staðinn fyrir »skal« sýlsunefnd gera samþykt o.s.frv. komi: getur sýslunefnd gera samþykt o. s. frv.

Bið eg svo háttv. deild velvirðingar á till. mínum. Eg vona, að þær verði ekki til þess að spilla þessu góða máli. En að fara að lögleiða nýjan nefskatt á þjóðina, eða leggja ný gjöld á sveitasjóðina að þeim ef til vill nauðugum, það hefi eg ekki viljað láta ganga fram hjá mér, án þess að vara menn við því.