03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í C-deild Alþingistíðinda. (1405)

93. mál, hallærisvarnir

Skúli Thoroddsen:

Eins og frv., sem hér ræðir um, er í garðinn búið, get eg ekki orðið því fylgjandi.

Eg játa það að vísu, að tilgangur frumv. — þ. e. að fyrirbyggja neyð í landinu — er góður og sjálfsagður, þar sem hver maður finnur og veit, að sú skyldan hvílir koss öllum, og þá og á hverjum einstökum.

Í stjórnarskrá vorri er þetta og viðurkent — sbr. 52. gr. stjórnarskrárinnar frá 5. Janúar 1874 — þar sem ákveðið er, að hver maður, karl eða kona, sem ekki getur séð sér farborða, eigi kröfu til framfæris af almannafé.

Þessu ákvæði stjórnarskrárinnar hefir síðan í framkvæmdinni verið ætlast til, að fullnægt væri á þann hátt, að sveitafélögunum er gert það að skyldu, að sjá fyrir þeim er þurfandi eru, hverju innan sinna takmarka, og á þann hátt, sem lögin nákvæmar til taka, en þó svo, að háð er eftirliti sýslunefndanna, og aðgangurinn þá og að sjálfsögðu að sýslufélögunum — eða því þeirra, sem í hlut á, — ef sveitarfélagsins þrýtur, eður og bregst skyldu sinni.

En beri hvorttveggja upp á sker, þá er landssjóður að sjálfsögðu, og á að vera. þrautalendingin, þ. e. hann verður þá að hlaupa undir baggann.

Að þessu leyti virðist þá vera sæmilega séð fyrir einstaklingunum hér á landi, er neyðin kreppin að.

Má því og eigi gleyma — þótt höfð sé þessi tilhögunin hér á landi —, að einstaklingurinn, sem á neyð kemst, hann á og í raun og veru aðganginn að öllum, og þá og að vísu eigi að eins að öllum, sem þjóðernis hans eru, heldur og að öllum, sem á jörðunni eru, þar sem á öllum verum jarðarinnar hvílir að sjálfsögðu einatt og hefir æ hvílt sú skylda, að sjá um, að hvívetna væri svo séð um, að öll neyð, hvar á jörðinni sem er, væri æ fyrirbygð eða þá tafarlaust stöðvuð.

En þó að íslenzka þjóðin hafi, sem fyr segir, gert sitt til þess að sjá um að bætt sé hér á landi tafarlaust úr hverri neyð í efnalegu tilliti, sem að höndum ber — um skyldurnar að öðru leyti, þ.e. út fyrir þjóðernið, hefir hún eigi sint, en verið þar smá og óvíðsýn að hugsun og framkvæmdum, eins og þjóðerni önnur og stórveldin sjálf —, þá er þó ekkert á móti því, að til sé sérsjóður — hallærissjóður — er grípa megi til, þá er stærri óhöpp ber að höndum, sem hallæri valda, svo sem t.d. eldgos, jarðskjálftar, hafís eða aðrir stórkostlegir náttúruviðburðir, sem hafa í för með sér almenna neyð.

En þótt tilgangur frumv. sé lofsverður, þá get eg þó ekki felt mig við það, né séð þörf á því, að nú sé enn farið að íþyngja almenningi hér á landi með beinum gjöldum, 1 kr. á karlmann, en 60 aur. á kvenmann.

Þetta getur orðið all-tilfinnanlegur skattur fyrir fátæk heimili.

Ef vér tökum t.d. eitt heimili, þar sem eru gömul hjón, sem orðin eru lúin, og geta ekki séð fyrir sér, en hafa þó einn son heima og tvær dætur — þá verður skatturinn á heimilið þó kr. 3,80 um árið.

Þetta eru ærið tilfinnanleg útgjöld fyrir verkmanna- og húsmanna-stéttina o. fl., — og það til viðbótar alþýðu- eða ellistyrktarsjóðsgjaldinu o.fl. o.fl. beinum gjöldum, að meðtöldum útsvörunum, sem alment er kvartað mjög yfir, og eigi óvíða fara síhækkandi.

Annars hefði mér fundist, að betur hefði átt við, að þingið hefði sýnt einhverja viðleitni í þá átt, að reyna að létta að einhverju leyti af almenningi beinu gjöldunum, heldur en að fara nú að bæta við þau, sbr. þá og tillögur mínar á aukaþinginu 1912 í þá átt.

Mig furðar satt að segja á því, að frumv., sem þetta — sem hleður á almenning nýjum beinum gjöldum — skuli vera flutt inn á þingið, og það að þjóð inni fornspurðri.

En hvers er annars að vænta af þinginu, eins og það nú er skipað og hefir verið skipað ?

Það eru ekki efnaminni stéttirnar, sem eiga fulltrúa eða málsvara hér á þinginu. Nei, það eru mestmegnis — ef eigi nær eingöngu — embættismennirnir og betur stæðu mennirnir, bændur o.fl., sem þingið skipa.

Og þegar þess er gætt, fer það að verða skiljanlegi, hvernig á því stendur, að frumv. sem þetta kemst eigi að eins inn á þingið, heldur fær hér töluverðan byr.

Þessa menn, þ. e. þingmennina sjálfa, skiftir það líklega fæsta — og ef til vill engan — nokkru verulegu, hvort beinu gjöldin eru nokkrum krónunum hærri eður eigi, — lánstraustinu þá og þannig hagað, að eigi skiftir, hvort skuldin hjá kaupfélaginu eða kaupmanninum er fáeinum krónunum meiri eða minni.

Alt öðru máli er á hinn bóginn að gegna að því er snertir fjöldann allan af landsmönnum, þ.e. húsmenn, sjómenn og verkamenn í kaupstöðum, kauptúnum og sjóþorpum o.s.frv. –sem og efnaminni bændur.

Ýmsir þessara manna vita oft eigi að vetrinum, hvernig fá eigi eitthvað til næsta málsins, — eða þá til þess að geta haft hita o.s.frv.

En beinu gjöldin verður að greiða, eins og þau eru, — þar getur enginn neitt við sig sparað.

Og þrátt fyrir þetta skirrist þingið þó ekki við að demba nýjum gjöldum á alþýðu.

Þessu veldur það eitt, að tilfinningin er alt of sljó hjá þinginu að því er bágindi annara snertir, — tilfinningarleysið of mikið og alt yfir gnæfandi, af því að ekkert amar þá að hjá þingmönnunum sjálfum, eða þá þeim þeirra, sem málinu eru fylgjandi.

Hitt, þ. e. að landssjóður legði árlega einhverja tiltekna upphæð í sérstakan sjóð, sem gripið yrði svo til þegar halli æri bæri að höndum, feldi eg mig betur við og gæti þá léð frumvarpinu fylgi mitt.

Brtill. háttv. 2. þm. G.K. (Kr. D.) bæta frumv. töluvert; verði þær samþyktar — þá yrðu lögin að eins heimildarlög, með því að að væri þá lagt á vald sýslunefnda og bæjarstjórna, hvort leggja skyldi gjaldið á menn í sýslu- eða bæjarfélaginu eður eigi. stofna þar bjargráðasjóð eða láta það ógert.

En þar sem þó er eigi loku fyrir það akotið, að gjaldið yrði þó sumstaðar lagt á, þar sem menn eru því þó illa vaxnir, að bætt sé á þá auknum beinum gjöldum, tel eg breytingartillögurnar þó eigi fullnægjandi.

Eg vil því skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki myndi réttara að koma málinu í það horf, sem eg hefi bent á, þ.e. að landssjóður stofni sér sérstakan hallæris eða bjargráðasjóð til hjálpar í almennum bjargarvandræðum.

Menn verða að gæta þess, að málið er enn lítið rætt í blöðunum eða á mannfundum, og má þó ekki minna vera en að almenningur fái að átta sig á málinu áður en að lögum er orðið.

Þá tel eg það og galla á lögunum, að eldra fólki, þ.e. fólki, sem orðið er t.d. sextugt, eða jafnv. 55 ára að eins, er hvorki ætlast til að hlíft sé, né heldur ætlast til hins, að það verði þá undanþegið gjaldinu.

En gamla fólkinu á að vorkenna og hlífa, er á fyrgreindan aldur — segjum orðið 55 ára — er komið, sbr. og það þá og tíðast orðið ið lasburða eða hálf- ef eigi al-veika og finnur því — sem og , allir —, að eigi á né má ætlast til jafnmikils af því sem öðrum, — enda tíðum alls eigi til neins.

Menn kunna nú að vísu að segja, að 8. gr. frumv. ráði bót á að nokkru, þar sem hún hljóðar svo:

»Nú þykir sveitarstjórn óráðlegt að heimta sama gjald af öllum, og er þá rétt, að hún jafni hallærisgjaldinu niður á þá, sem gjaldskyldir eru, eftir efnum og ástæðum, eða greiði það úr sveitarsjóði«.

En þótt ákvæði þetta bæti að vísu nokkuð úr, þá hafa sveitasjóðir þó víðast svo miklu undir að rísa, að sízt er á þá bætandi, enda hafa fræðslulögin að mun aukið átgjöld þeirra — auk þess sem gjöld þeirra til sýslusjóðanna eru eigi óvíða mjög há.

Sannarlega er sú þörfin því miklu brýnust, að létta á einhvern hátt undir með sveitarsjóðunum, þ.e. ætla þeim t. d. hluta af tollgjöldum, sbr. tillögu mína á þinginu 1912.

Að því leyti sem gert er þá og ráð fyrir því, að sveitarsjóðirnir nái gjaldinu inn aftur með niðurjöfnun »eftir efnum og ástæðum«, þá er það og mjög varhugavert, eins og öll slík niðurjöfnun yfirleitt.

Niðurjöfnunarnefndum og hreppsnefndum er þar fengið vald í hendur, sem einatt má misbeita — vald, sem heita má að hver maður standi alvarnarlaus gegn.

Mennirnir ekki eins góðir eina og þeir ættu að vera — fæddir með vísum illra og enda döfullegra þráa, er síðan þroskast í liðnu í stað þess er albælst ættu niður, o.fl. o.fl., þ.e. hefnigirni o.fl. ilt getur því auðveldlega komist þar að og ýmsum verið gert rangt til.

Að því er frumvarpið í heild sinni snertir, skal eg eigi fara um það frekari orðum, en ítreka það, að eg vænti þess að nefndin taki það að nýju til rækilegrar íhugunar, og athugi þá og bendingar mínar.