09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (141)

21. mál, íslenskur sérfáni

Skúli Thoroddsen:

Það er að eins stutt athugasemd, sem eg vildi gera við ræðu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Hann sagði að sig snertu óþægilegar endurminningar, sem bundnar væru við bláhvíta fánann, af því að fánamálinu hefðu verið samfara svo miklar æsingar. En það er ekki rétt, að kalla það æsingar, þó að menn fylgi því máli eindregið fram, er þeir hafa áhuga á. Þegar svo er, þá er það ekki nema eðlilegt, að menn lýsi skoðunum sínum fyrir almenningi, og reyni sem unt er, að beita afli röksemdanna, og lýsa þá og jafnframt skoðunum þeirra, er á móti mæla, og hreki þær, sem föng eru.

Kalli háttv. þm. S.-Þing. þetta æsingar, þá eru það þær æsingar, sem hjá verður eigi komist, og þegar andmælunum er þannig háttað, að véfengd eru réttindi Íslendinga, þ. e. véfengt, að íslenzkt löggjafarvald hafi rétt til þess að lögleiða sérstakan fána, þá er sízt að furða, þótt baráttan geti orðið nokkuð hörð, eða þótt mönnum sárni það, er sannleikanum og réttinum er mótmælt. Á því mega menn ekki hneykslast, enda baráttan einatt skilyrði þess, að sigurinn verði, fyr eða síðar, unninn.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði, að betur hefði nú verið ástatt, ef frumv. millilandanefndarinnar frá 1908 hefði eigi verið hafnað; en þetta er fjarstæða. Því að — eina og háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir tekið fram — fór því svo fjarri, að tillögur meirihluta millilandanefndarinnar trygðu Íslandi fullveldi, að þar var þvert á móti öllu fullveldi skýrt og skilmerkilega afsalað, þar sem fela átti Dönum hermál, utanríkismál o. fl., er vera skyldi í þeirra höndum um aldur og ævi.

Með því að ganga að þessu, hefðu Íslendingar svift sig öllu fullveldi, að því leyti sem nokkur þjóð getur fullveldinu svift sig, því að segja má um það, sem um hvern annan siðfræðilegan rétt vorn, að það sé í raun og veru alóafsakanlegt. Þó að einhver segi: “Þú mátt slá mig, þú mátt ljúga á mig„, eða því um líkt, þá er réttur hann þó æ engu að síður sá, að vera sá sem eigi er barinn, eða eigi er álygum beittur o. s. frv.; það er hinum þó eigi ábyrgðarlaust að beita hann inu illa. Eða á eigi vor kvöl, eða sársauki, einnig að vera kvöl, eða sársauki, öðrum ? Engum því heimilt að gangast undir kvöl eða réttartröðkun í sinn garð, og baka svo öðrum, með eiginni kvöl, kvalir.

Alveg eins er því þá og háttað, að því er til þjóðarsjálfstæðisins kemur, að þar er þá og um þann rétt að ræða, er þjóðerni hverju æ er al-óafsalanlegur, enda Dönum, sem öllum, æ skylt, að þrá eigi að eins eigið þjóðarsjálfstæði, heldur og annara, og þola það eigi fremur — en enda enn síður —, að annara réttindum sé traðkað, en Þeirra eigin.