03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í C-deild Alþingistíðinda. (1410)

93. mál, hallærisvarnir

Kristinn Daníelsson:

Þeir hv. ræðumenn, sem talað hafa í þessu máli, hafa farið mjög vinsamlegum orðum um tillögur mínar; jafnvel þeir sem hafa verið á móti þeim. Geri eg mér von um, að þær vinni svo hylli deildarinnar, að þær verði samþyktar.

Eg ætla að eins að fara nokkrum orðum um það sem ýmsir háttv. þm. hafa sagt. Háttv. þingm. V.-Ísf. talaði um, að við mundum ekki vera taldir meðal menningarþjóða. Þó að þetta komi málinu ekkert við, get eg samt ekki annað en rekið tærnar í þessi ummæli. Ímynda eg mér, að okkur verði aldrei neitað um það, að við séum menningarþjóð, þótt við séum máske eigi komnir langt áleiðis á menningarbrautinni.

Eg var búinn að taka það fram, að hallærishættan í landinu væri misjafnlega mikil. Það eru ýmis héruð, sem eru útundan að því leyti. Sérstaklega er hætt við hallæri í Norðlendingafjórðungi, og álít eg því að vel við ætti að hann gengi á undan í þessu efni, og safnaði fé saman í sjóð af frjálsum vilja. Gæti málið engan betri undirbúning fengið, en ef við gætum bent á, að þetta væru menn farnir að gera í Norðlendingafjórðungi. Sunnlendingafjórðungur og aðrir landsfjórðungar gætu þá líka hagað sér eftir því fyrirkomulagi, sem komið væri á fyrir norðan.

Þá hefi eg skrifað eitthvað af því upp, sem háttv. þingm. S.-Þing. (P.J.) sagði. Þykir mér verst að hann er nú að ganga út. Get eg tekið undir þá góðu hugsun með honum, er hann vildi að allir fylgdust að, og að nútíð og framtíð tækju saman höndum um þetta mál. Með einhverjum slíkum hug var það, að eg gekk svo langt með nefndinni, sem eg gerði. En þar sem háttv. sami þm. sagði, að ef menn vildu ekki fúsir gangast undir skattinn, hefði hann ekkert á móti, að menn yrðu neyddir til þess, get eg ekki verið honum sammála. Bezt væri að þjóðin væri öll á einu máli um þetta. Og við, sem erum hér verkamenn hennar, ættum að gera sem fæst að henni fornspurðri.

Í annan stað finst mér, að háttv. þm. sé þetta ekki svo mikið kappsmál; og finst mér þá, að það kæmi nokkurn veginn í sama stað niður, þótt það biði til næsta ára. Mér finst, að ef mínar tillögur yrðu samþyktar, gæti málið fengið þann undirbúning, sem það þarfnast. Háttv. sami þm. sagði, að þó þessi lög mundu íþyngja sveitasjóðum, þá yrðu þau einnig til að létta undir með þeim. Fæ eg eigi séð, hvernig það má verða. Það eru ellistyrktarsjóðirnir, sem koma sveitarsjóðunum að gagni. Eru þeir þegar farnir að gera það og munu í framtíðinni ef til vill létta af öllum sveitarbyrðum. Þegar hallæri kemur, gengur það ekki eingöngu út yfir fátæklingana, heldur einnig yfir ríkismennina. Við höfum sögur af því, að jafnvel stórríkir menn hafa orðið að kaupa einn málsverð fyrir heilar jarðir.

Þá ætla eg að minnast á, það sem háttv. framsögum. sagði, að mér hefði ekki þótt gerlegt að bæta við nefskattana. Eg tók einnig fram, að eg áliti að það bæri ekki að bæta á byrðar sveitasjóðanna. Mér finst svo mörgu gjaldi varpað á sveitasjóðina, sem fremur ætti að vera landssjóðsgjald en sveitargjald. Hv. frsm. sagði, að menn yrðu líka að gæta þess, að þó að þetta. gjald yrði ekki lagt á þennan hátt á einstaklingana, þá yrði það þó lagt á þá öðruvís, sem landasjóðsgjald. En það er alt annað, að landssj. borgi gjaldið, en að það leggist á hv ern einstakling. Ef landssjóður yrði látinn borga gjaldið, yrðu einhver önnur gjöld að þoka fyrir því að einhverju leyti, svo að útgjöld landasjóðs mundu eigi hækka svo mjög við það.

Skal eg svo ekki orðlengja meira um þetta mál. Vil eg að endingu leyfa mér að mæla sem bezt með tillögum mínum.