04.09.1913
Neðri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í C-deild Alþingistíðinda. (1415)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Jón Magnússon:

Út af orðum hv. 1. þingm. Rvk. (L. H. B.) skal eg taka það fram, að ef fé það sem veitt er, er ekki nægilegt til þess að fyrirtækið komist á, þá er ekki hættan stór, því að þá verður fjárveitingin ekki notuð. Annars þarf hvorugu þessu að kvíða. Fjárveitingin verður notuð, af því að hún er nægileg til þess að fyrirtækið komist á fót. Fyrst er nú það, að hafnarsjóður Eyjanna á talsvert fé í sjóði — mér skilst ein 20 þúsund krónur — sem má hafa til viðbótar við það fé, sem farið er fram á að Alþingi veiti og ábyrgist, og svo fær sjóðurinn árlega talsverðar tekjur, um 5000 kr. á ári, eins og nú til háttar. Auk þess skýrir sýslumaður Eyjanna mér frá því, að draga megi úr kostnaðinum, þótt ið umrædda tilboð Monbergs verði tekið og höfnin þó jafn trygg. Eg hygg því að háttv. 1. þm. Rvk. þurfi engan kvíðbeyg að bera fyrir því, að féð sé of lítið, og og fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til að fara fram á hærri fjárveitingu fyrir þessa upplýsingu um tilboðið.

Að þetta sé gert fyrir Eyjarnar; látum svo vera, það er ekkert annað en bein skylda landssjóðs; þær eru landsins eign. Landssjóður hefir aldrei gert neitt annað, að kalla má, fyrir Eyjarnar, en að hirða af þeim tekjurnar, og þær tiltölulega afarmiklar. Atvinnuvegur þeirra sem þar búa, er í stöðugri hættu meðan höfnin er ekki bætt. Auk þess er það ekki rétt, að fyrirtækið sé eingöngu fyrir Eyjarnar. Eg hefi tekið það fram áður, að höfnin hefir mikla þýðing fyrir aðra jafnframt, t.d. fyrir flutninga til Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslu og jafnvel Árnessýslu, og auk þess fyrir ýmis skip, sem þangað kunna að hleypa.

Eg skal ekki fara lengra út í þetta mál; það hefir enga þýðing. Það er ekki svo margbrotið, að hv. þingdeildarmenn geti ekki fljótt áttað sig á því. Eg vona að frumvarpið nái fram að ganga, þótt háttv. formaður fjárlaganefndar leggist nú á móti því, af misskilningi og þekkingarleysi á því, hvað málið er áríðandi.