04.09.1913
Neðri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í C-deild Alþingistíðinda. (1416)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Lárus H. Bjarnason:

Mér þótti einkennilegt að heyra háttv. þm. Vestm. (J. M.) taka sérstaklega fram þá ástæðu, sem eg lagði minsta áherzlu á. Hann sagði, að Vestmanneyingar gætu komið upp höfninni á eigin spýtur; en eg lagði ekki aðaláherzluna á það, heldur hitt, hvort þeir gætu staðið straum af henni.

Sami háttv. þingmaður sagði, að enginn skaði væri skeður, þótt lögin yrðu samþykt; ef ekki þætti ráðlegt að leggja út í fyrirtækið, mundi það ekki verða gert. Eg er nú hræddur um það, að eyjabúar klífi þrítugan hamarinn til þess að fá höfnina, ef frumvarpið verður að lögum, án þess að líta jafnmikið á það, hvort þeir mundu geta staðið straum af höfninni hjálparlaust, og þeim væri það fulkomin vorkunn.

Sami háttv. þingm. tók það fram, að eyjarnar ættu um l0 þús. kr. í hafnarsjóði, auk þess sem safnast á næstu árum, og mundi eign hafnarajóðs nm það leyti sem byrjað yrði á verkinu, nema jafnmikilli upphæð og framkomið tilboð færi fram úr áætlun. Má vera, en hræddur er eg um að hér sé vel í lagt, enda skildist mér á manni í fjárlaganefnd, að það fé væri ætlað til annars: Og hvað sem því líður, þá létti það að eins undir um byggingarkostnað, en ekki um viðhaldskostnaðinn, sem er aðalatriðið fyrir landssjóð, af því að hann mundi verða að hlaupa þar undir bagga vegna ábyrgðarinnar.

Að öðru leyti efast eg ekki um, að eitthvað megi klípa úr upphæðinni — t. d. með því að minka þetta stóra upplagspláss.

En því meira sem skorið er af upphæðinni, því óaðgengilegra verður frumvarpið fyrir þingið, sem veitir féð í því trausti, að höfnin geti komið fleirum að notum en Vestmanneyingum einum, kaupstöðunum á suðurströndinni, Vík, Eyrarbakka og Stokkseyri. Eigi höfnin að eins að vera fyrir mótorbáta og til skjóls botnvörpungum, þá fellur sú ástæða til að styrkja höfnina — von um almenningsnot hennar — burtu.

Háttv. þm. Vestm. hefir ekki tekist að tala svo, að hann hafi getað haft áhrif á mína skoðun, sérstaklega þar sem hann hrakti ekki aðalatriði ræðu minnar — vafann um það, að héraðið geti staðið straum af hafnargerðinni. Aftur á móti hefir hann styrkt þá skoðun mína, að komast megi af með minna en undir 300 þús. kr. til þess að ná aðaltilgangi frumvarpsins, að höfnin verði til skjóls mótorbátum.

Eg get því ekki léð frumvarpinu atkvæði mitt, enda mun það ekki þurfa þess með.