04.09.1913
Neðri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í C-deild Alþingistíðinda. (1417)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Jón Magnússon:

Það er satt, að eg talaði ekki nú um það, hvort áætlun sýslunefndar um væntanlegar tekjur af höfninni væri ábyggileg. Eg gat þess við 1. umr., að eg teldi það víst að hún færi ekki of hátt í áætlun sinni, sýslunefndin hefir lagt áætlunina fyrir fjárlaganefndina, er tók hana gilda og bygði á henni. Það er sjálfgefið, að það er ekki hægt að færa lagasönnur fyrir því, að áætlun sýslunefndarinnar sé rétt, en eg staðhæfi það, og þykist af kunnugleika mínum geta betur um það borið en inn háttv. þm., að ekki sé hægt annað að segja en að áætlunin sé mjög varleg.

Auðvitað væri æskilegt að höfnin væri stærri, en eins og fyrirætlunin er að hafa hana, þá kemur hún að notum, ekki einungis fyrir mótorbáta, heldur geta komist þar inn flest þau flutningagufuskip, sem eru í förum hingað til lands, fyrir utan hin stærri millilandapóstskip, og auðvitað geta botnvörpungar farið þar inn. En það er mikilsvert atriði að höfnin geti orðið fyrir botnvörpung. Bæði mundu erlendir botnvörpungar koma þangað oft inn til að kola, en hitt er þó aðalatriðið, að mikil líkindi eru til að Eyjabúar fari að snúa sér að botnvörpungaútgerð sjálfir. En það er rangt hjá háttv. þm., að þurfi að dýpka alla höfnina fyrir það. Eyjabúar hugsa sér víst ekki að hafa mjög marga botnvörpunga í byrjun, svo að höfnin ætti fyrst um sinn að verá nógu stór fyrir þá.

En þótt svo verði, sem líklegt er, að botnvörpuveiðaútgerð komi í Eyjum, þá er líklegt að mótorbátaútvegur haldist þar enn lengi og þá er lífsskilyrði að fá eitthvað skjól fyrir þá, Eg skal ekki segja beint nema hægt væri ef til vill að komast af með minn:v fé til þessa eina, en það er ekkert vit í öðru en að gera höfnina þannig úr garði, að hún geti auk þess komið botnvörpungum að haldi. Líka ber þess að gæta, sem áður hefir verið tekið fram, að höfn í Eyjunum kemur nálægum héruðum að mjög miklu gagni.