05.09.1913
Neðri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í C-deild Alþingistíðinda. (1435)

98. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frams.m. (Kristinn Daníelsson):

Eg var búinn við 1. umr. þessa máls að skýra frá, hvernig í því lægi. Eg þarf því ekki að fara út í það í þetta sinn og get vísað til nefndarálitsins um þá niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að.

Við 1., 3. og 4, gr. hafði nefndin ekkert að athuga. En við 2. gr. sem er aðalmergurinn í frumv., hefir meiri hl. nefndarinnar komið fram með brtill. á þgskj. 685, þess efnis, að greinin falli burt. Eg get hvorki sem flytjandi málsins né nefndarmaður aðhylst þessa tillögu, og vona að háttv. deild fallist á ósk bæjarstjórnarinnar og mína, að samþykkja 2. gr. Aðalatriðið er að geta lagt útsvar á menn, sem reka þar atvinnu lengri tíma, en er ekki hægt vegna bæjarstjórnarlaganna. Þetta ákvæði um fjögra mánaða fast aðsetur er orðið ótímabært, og nær það engri átt lengur að láta undan ganga ýmsa gjaldstofna, því að atvinnuvegirnir eru orðnir mjög svo breytir. Til dæmis eru reknar þaðan ekki minna en 16 botnvörpuútgerðir, og skortir að eins 1–2 vikur á að hægt sé að leggja á þær útsvar. Útlend stórgróðafélög hafa bækistöð sína í Hafnarfirði og leggja þar upp afla. Þau reka stórkestlega útgerð og er mér sagt af kunnugum mönnum, að aflinn sé venjulega 250–300 tons á hvert skip. Það er líka margt fleira, sem kemur til greina. Eins þarf að breyta sveitarstjórnarlögunum, svo að hægt sé að leggja á þessa gjaldastofna. Útlendingar vaða inn í landið með ýmsan atvinnurekstur, og ætti að vera hægt að leggja í hlutfalli við aðra gjaldendur. Eg varð í minni hl. í nefndinni, og munu hinir nefndarmennirnir skýra málið frá sínu sjónarmiði. Mér finst það ekki næg mótbára, að það þurfi að breyta bæjarstjórnarlögum annara bæja um leið og þeim er breytt í Hafnarfirði. Það stendur ekki alstaðar eina á, og er ekkert á móti því að þessi bær gangi á undan, því að það hagar svo sérstaklega til að því er snertir þessa botnvörpuútgerð.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en legg brtill. á þgskj. 685 undir úrskurð háttv. deildar með þeirri ósk og von, að hún fallist á mitt mál í þessu efni.