05.09.1913
Neðri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í C-deild Alþingistíðinda. (1441)

21. mál, íslenskur sérfáni

Kristinn Daníelsson:

Eg ætla mér ekki að fara að fara út í hugleiðingar háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.), sem hann byrjaði á, því þær voru um þau atriðin, sem öll nefndin kom sér saman um að fella.

En um hin atriðin, sem okkur skilur á um, og háttv. þingmaður mælti móti, þá finst mér þau mótmæli vera bygð á heldur litlum ástæðum. Það var þá önnur ástæðan sú, að þetta mundi valda óánægju; en það eru engar sannanir færðar fyrir því. Eg skal auðvitað ekki segja um það, hvort einhverjar sveitir geti ekki verið óánægðar yfir því, af því þeim finst þær ekki græða neitt á því. En það er þó að öllu leyti ósannað. Hin ástæðan var sú, að þetta væri ekki réttlátt. Eg held þvert á móti, að það sé fullkomlega réttlátt. Skal eg segja hér eitt dæmi því til sönnunar:

Kvenmaður kemur gestkomandi að bæ suður í Garði. Hún verður veik þar og legst í rúmið. Hún fær að vera þar á bænum ókeypis missiris tíma. Þá vill bóndi ekki hafa hana lengur ókeypis og lætur hreppstjóra skrifa hreppsnefndinni í framfærslusveit stúlkunnar og skora á hana að borga með sjúklingnum. Hreppsnefndin svarar: Nei, við borgum ekkert. Sendið þið hana til okkar. Nú er læknir spurður, hvort óhætt sé að flytja stúlkuna, og hann aftekur það. Nú liggur stúlkan veik eitt ár enn þá. Þá er hreppsnefndinni í framfærsluhreppnum skrifað aftur og krafist borgunar með stúlkunni. Þá kemur sama svarið aftur: Nei, við borgum ekkert; sendið hana til okkar. Þá er læknir spurður aftur og hann bannar að flytja hana; henni standi lífshætta af því. Svona fer aftur næsta ár; svarið aftur: Við borgum ekkert; sendið okkur hana. Og svona getur það haldið áfram fleiri ár. Er það ekki öllum ljóst, að svona getur það ekki gengið?

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.) hélt því fram, að læknisvottorð væru einskis verð. Finst mér það nokkuð hart, að bera embættismönnum það á brýn, hvort sem það eru læknar eða prestar eða aðrir, að þeir láti sér ekki fyrir brjósti brenna að gefa fölsk vottorð í embættisnafni. Þetta er svo fjarstætt að það nær ekki nokkurri átt. En þó voru þessi brigzlyrði háttv. þingmanns í garð læknanna ekki í neinu til þess að styðja mál hans, því það er ekki dvalarsveitinni í hag, að læknir dæmi þurfaling annarar sveitar ekki flutningsfæran. Dvalarsveitin vill auðvitað helzt að hún geti komið sjúklingnum burtu og í sinn fram færsluhrepp.

Svo býst eg ekki við að tala meira í þessu máli. Og þótt eg álíti að þetta sé réttlátt ákvæði, þá játa eg, að það sé ekki neitt slíkt höfuðspursmál fyrir landsins gagn og nauðsynjar, að það þurfi þess vegna að halda neitt langar tölur um það.