06.09.1913
Neðri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í C-deild Alþingistíðinda. (1445)

26. mál, sparisjóðir

Framsm. meiri hl. (Magnús Kristjánsson):

Við frumv. þetta eru framkomnar 8 brtill. á þrem þingskjölum. Nefndin hefir tekið þær til athugunar og skal eg nú með sem fæstum orðum skýra frá áliti hennar á þeim.

Fyrsta brt. er á þgskj. 684. Nefndin getur ekki fallist á hana, vegna þess að hún lítur svo á sem hún muni verða til þess að minka trygginguna fyrir útlánum úr sjóðunum, en eins og öllum er ljóst, er það aðaltilgangur frumv. að auka hana. Nefndin getur ekki annað séð, en að það sé fulllangt gengið, að heimilað sé að hafa helming veltufjárins í sjálfskuldarábyrgðar og víxil-lánum, þegar athugaðar eru ástæðurnar eins og nú er, þar sem rúmlega 4/10 af öllum lánum eru veitt gegn fasteignarveði. Það verður að gæta að því, að ekki er ætlast til að þessi ákvæði nái til þeirra lána, sem þegar eru til, heldur þeirra sem hér eftir verða veitt. Nefndin leggur því til, að þessi brtill. verði feld.

Þá eru brt. á þgskj. 726 frá 2. þm. G.-K. (Kr. D.). Meiri hluti nefndarinnar hafði ekki búist við þessum brtill. frá honum, af því að hann hafði fengið framgengt sínum brtill. við 2. umræðu.

1. brtill. á þessu þgskj. er við 9. gr. og fer fram á að siðari hluti hennar falli burtu. Það ákvæði var gert til þess að gera mönnum hægra fyrir að skifta við sjóðina, að féhirðir megi veita greiðslum móttöku án þess að annar starfsmaður sé viðstaddur, en að hins vegar kvittun hans sé ekki skuldbindandi fyrir sjóðinn, nema hún sé meðundirrituð a. bókara. Það sjá allir, að þetta fyrirkomulag hlýtur að vera miklu þægilegra, sérstaklega í sveitum, og þess vegna álítur meiri hluti nefndarinnar rétt, að fella þessa brtill.

2. brtill. á þessu þgskj. er ekki heldur þannig vaxin, að meiri hluti nfnd. geti aðhylst hana. Hún er um það, að fella burtu skyldu sjóðanna til þess að eiga þetta handbæra tryggingarfé, 5% af sparisjóðsinnstæðufénu. Eins og frumv. kom frá Ed., Var ætlast til, að þetta yrðu 10% af innstæðufénu. Nú hefir það verið lækkað um helming, og er nefndin eindregið móti því, að lækka það ennþá meira.

Þá er loks 3. brtill. á þessu þgskj. Við 22. gr., sem fer fram á það, að laun eftirlitsmannanna greiðist úr landssjóði, bæði ferðakostnaður og dagpeningar. Þetta vill nefndin ekki aðhyllast. Úr því að það var feit, að hafa eftirlitsmanninn einn, en hitt ráðið tekið, að hafa þá marga víðsvegar um landið, virðist henni ekki ástæða til þess að landssjóður kosti þá, heldur sparisjóðirnir.

Nefndin leggur því til að fella þessa brtill. eins eg hina. Og um varatillögu háttv. sama þm., um að landssjóður greiði ferðakoatnaðinn, en sparisjóðirnir dagpeningana, er alveg sama að segja. Nefndin leggur til að fella hana líka.

Þá eru brtill. á þskj. 730, frá minni hl. nefndarinnar, sem öll nefndin getur fyllilega fallist á að því er snertir 8. gr. Þetta eru ekki annað en orðabreyt., sem ekki þarf að skýra og eru sjálfsögð afleiðing af því sem þegar hefir verið samþ. Sama er að segja um brtill. á þessu þskj. við 12. gr.; hún er líka afleiðing af því sem áður hefir verið samþ. En 3. brtill. er dálítil efnisbreyting, og álítur nefndin að hún sé til bóta, þótt ekki sé hún beint nauðsynleg. Hún er um það, að jafnan skuli borga af sjálfskuldarábyrgðarlánum, sem verða eldri en eins árs, og að þau skuli ekki verða eldri en 10 ára. Nefndin er því meðmælt öllum brtill. á þgskj. 730.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Væntanlega hafa háttv. þm. kynt sér þessi þingskjöl, og nefndin gerir sér góðar vonir um að tillögum hennar verði vel tekið.