06.09.1913
Neðri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í C-deild Alþingistíðinda. (1447)

26. mál, sparisjóðir

Kristinn Daníelsson:

Eg verð að segja nokkur orð, þar sem eg hefi komið fram með fáeinar breytingartill. á þgskj. 726.

Háttv. framsögum. meiri hlutans (M. K.) sagði, að ekki hefði verið hægt að búast við að fram kæmu brtill. frá mér, sérstaklega þar sem till. okkar háttv.

1. þingm. Skagf. (Ól. Br.) hefðu fengið framgang við 2. umr. þessa máls. Eg hygg, að háttv. framsögum. muni úr nefndinni, að eg talaði þar æ í þá átt sem þessar brtill. mínar fara, þó að það fengi ekki áheyrn hjá hv. meiri hluta. Eg hefi frá upphafi verið efins um, að eg gæti fylgt málinu til enda. ef eg fengi ekki breytingar á því.

Eg skal svo víkja að breytingartill. mínum og efni þeirra. Það hefir aðallega vakað fyrir mér, að nú verandi starfsaðferð sparisjóðanna mætti ekki raska um of, og sízt gerbreyta henni svo sem farið er fram á í þessu frumvarpi. Slík breyting mundi verða óvinsæl hjá öllum almenningi og það þarf langan tíma til að koma henni í kring, ef vel á að fara. Sparisjóðsstjórnunum má ekki, svona alt í einu, gera alveg ómögulegt að vinna í þeim anda, sem þær hafa unnið hingað til. Menn verða að gæta að því, að þó að sparisjóðirnir séu orðnir allmargir hér á landi, þá eru þeir smáir enn þá, og þess vegna má ekki sníða þeim reglur eftir þeim sparisjóðum, sem þetta frumv. Virðist hafa fyrir augum. Eg álít, að þegar gera á breytingar á þeim, þá verði að ganga út frá því sem er, en ekki að koma með alveg nýja sköpun á öllu fyrirkomulagi þeirra.

Fyrsta brtill. mín er við 9. gr. um, að síðari hluti hennar falli burt, svo að eftir standi að eins, að það skuli vera aðalreglan, að tveir starfsmenn sparisjóðsins séu viðstaddir. þegar einhver upphæð er greidd úr sjóðnum eða í hann, en að það þurfi ekki endilega að vera. Eg held, að það sé rétt að láta sér nægja þessa aðalreglu, því að í henni felst þó nokkur trygging fyrir því, að það verði smámsaman jafnvel eina reglan. Það er algengt nú sem stendur, að féhirðir tekur einn á móti innborgunum í sparisjóðsbækur og greiðir vexti og afborganir af lánum, og kvittanir hans eins fyrir því eru teknar gildar. Þetta er mjög þægilegt og jafnvel ómissandi eins og nú hagar til hjá okkur, einkum þegar aðkomumenn eiga í hlut, sem getur bráðlegið á því; að fá sig fljótt afgreidda. Í þessu sambandi er á tvent að líta, tryggingu sparisjóðsins og tryggingu hvers einstaks manns, sem leggur fé sitt í sjóðinn. Trygging sparisjóðsins má ætla að aukist með því að þetta sé aðalreglan, að tveir menn séu viðstaddir allar innborganir og útborganir. Sins vegar ætti hverjum einstakiingi að vera óhætt að fá féhirði einum í hendur fé sitt.

Mér finst að almenningi ætti að vera óhætt að treysta svo mikið opinberum starfamönnum. Og ef eitthvað bæri út af, ætti einstaklingurinn ekki að gjalda þess, heldur stofnunin, sem hefir manninn fyrir trúnaðarmann. Eg hygg líka, að hver banki hafi jafnan talið það skyldu sína, að láta viðskiftamennina ekki gjalda þess, að einhver starfsmaður hefir reynst óáreiðanlegur. Mér finst að stjórn stofnunarinnar, en ekki einstaklingurinn, sem getur verið fáfróður almúgamaður, eigi aðgang að féhirðinum, ef eitthvað ber út af, og að það sé á hennar ábyrgð að hann standi trúlega í stöðu sinni. Féhirðirinn á líka samkvæmt 10. gr. frumv. að setja tryggingu fyrir fé, því sem honum er trúað fyrir. Sparisjóðurinn á því hægt með að krefja hann til reikningsskapar ef út af bæri. Ef orðin í 9. gr., að féhirðir megi taka á móti greiðslum í sjóðinn án þess að annar starfsmaður sé viðstaddur, eiga við það, að hann megi gera það sem »privat«-maður — öðruvís verður það ekki skilið, þar sem kvittun hans eins fyrir upphæðinni er ekki skuldbindandi fyrir sjóðinn — þá þarf eg engin lög til þess, að mega biðja féhirði eða bókara að geyma fyrir mig peninga og leggja þá síðan inn í sparisjóðinn fyrir mína hönd, þegar svo stendur á, að hægt er að gera það formlega. En það getur staðið svo á, að eg komi að eins einu sinni á sumri þangað sem sparisjóðurinn er, og þá vil eg fara með sparisjóðsbókina mína heim með mér og hafa alt klappað og klárt. Það er alls ekki víst, að eg hafi tíma til að bíða eftir því, að hægt sé að fylgja þessum reglum. Þó að þetta fyrirkomulag sé haft á stórum sparisjóðum annarstaðar, þá eru okkar sparisjóðir svo smáir, að það þarf ekki að eiga við um þá. Það er ekki vel til fallið, að gera starfsmönnum þeirra óþarflega erfitt fyrir, þegar aparisjóðirnir okkar allflestir lifa á bónbjörgum um mannhjálp, ef svo má segja. Þeir eru of smáir til þess að vel fari, að klæða þá í jafn-stóran stakk. Eg legg því til, að þessi breytingartillaga mín verði samþykt.

Næsti töluliðurinn í breyt.till. mínum á þgskj. 726 er við 17. gr., að hún falli burtu. Þetta miðar að því, að láta ekki of mikið af fé sparisjóðanna vera bundið og tekið út úr veltu. Því var haldið hér Við 2. umræðu, að sparisjóðirnir væru að eins til þess að geyma fé manna á tryggilegan og áreiðanlegan hátt. Eg játa nú sem þá, að þetta er fyrsti tilgangur sparisjóðanna. En því held eg fast fram, að eins og á stendur, þurfa þeir líka að vera lánsstofnanir, ef þeir eiga að geta nokkurn veginn fullnægt þörfum almennings. Það verður ekki hjá því komist enn sem komið er, þó að hitt sé vitanlega aðalhlutverk þeirra Það er svipað um þá eins og mennina. Þeir hafa oftast nær eitthvert aðalhlutverk, en verða þó jafnframt að gegna ýmsum aukastörfum. Eg nefni t. d. okkur prestana. Prestskapurinn er okkar aðalhlutverk, en við erum margir jafnframt oddvitar, sparisjóðsformenn og til skamms tíma höfum við orðið að vera bólusetjarar. Nú eru prestarnir lausir við þetta síðasta starf, og eins hygg eg að það muni ganga með sparisjóðina, að þeir muni seinna meir geta hætt að sinna lánsstörfum, sem þeir mega nú til með að gera, t. d. ef þeir kæmust í fast bandalag við einhvern banka. Nú sem stendur þarfnast alþýðan og vill að sparisjóðirnir fullnægi báðum þessum þörfum. Þeir Suðurnesjungar, sem hafa peninga afganga, eru fúsir til að lána þá öðrum Suðurnesjungum, sem þurfa þeirra við. Þeim er það alt eins ljúft, eins og að þeir séu settir í bankaobligationir eða bundnir á annan hátt. Eg álít þess vegna mjög varhugavert að binda varasjóð sparisjóðanna þannig, eins og gert er ráð fyrir í 17. gr. frumv. Það getur meira að segja farið svo, eftir orðum greinarinnar, að allur varasjóðurinn verði bundinn. Þessarar tryggingar þarf líka miklu siður við, þar sem annarstaðar í frumv. eru ákvæði um aðrar tryggingar, t. d. í 13. gr. Mér er þetta ekkert kappsmál sem »princip«-atriði. En það verður að fara eftir því sem hagar til um þá sparisjóði, sem nú eru í landinu. Ýmislegt af þessu, sem eg legg til, hefi eg gert í samráði við glöggan og reynd an sparisjóðsstjórnanda, sem eg hefi unnið með.

Þá kem eg að síðustu breytingartill. minni, sem er nokkuð annars eðlis en hinar. Hún miðar að eins að því, að 8rra sparisjóðina tilfinnanlegum skatti, sem mér finst vera. Þegar litið er til þess, hvað sparisjóðirnir eru yfir leitt fátækir, þá munar þá ekki svo lítið um að bera einir alla byrðina, sem af sparisjóðseftirlitinu leiðir. Eg hefi borið fram aðra tillögu til vara, ef mönnum þætti aðgengilegra að losa þá ekki að öllu leyti við þennan skatt. Eftir henni eiga sparisjóðirnir aðra grein kostnaðarins, en landssjóður hins.

Breytingartill. minni hlutans þarf eg ekki að tala um. Eg skal að eins lýsa yfir því, að eg er þeim fylgjandi.

Breytingartill. háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) er eg samþykkur. Hún miðar að því sama sem viðleitni mín, og mundi eg hafa tekið hana með mínum tillögum, ef hann hefði ekki orðið á undan mér. En sennilega mundi eg hafa farið enn lengra en hann og tiltekið 3/4 í stað 2/3. En eftir atvikum sætti eg mig við þó að ekki sé lengra farið.

Að svo mæltu legg eg tillögur minar á vald háttv. deildar. Eg sel þær ekki dýrari en eg keypti þær. Þetta er skoðun mín á þessu máli, bygð á þeirri reynslu, sem eg hefi fengið við sparisjóðsstarf um allmargra ára skeið.