09.09.1913
Neðri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í C-deild Alþingistíðinda. (1459)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Bjarni Jónsson:

Eg lét það ljós, þegar málið var hér til umræðu fyrir nokkru, að mér líkaði ekki alls kostar hvernig frumvarpið væri úr garði gert. Til dæmis lét eg það í ljósi, að mér virtist rétt, að eigendur jarðanna ættu sjálfir húsin á jörðum sinum; og ýmislegt fleira var það, sem eg hafði við frumvarpið að athuga. En þegar frumv. kemur nú frá efri deild, þá var það, orðið enn þá verra. Ef frumv. á nú að ganga fram, þá verður að færa það aftur í samt lag; því eins og það er nú úr garði gert, þá er það algerlega óhafandi. Eg vil leggja það til, að ef breytingartillögur nefndarinnar ekki verða samþyktar, þá verði frumv. líka í heild sinni felt. Mér virðist það hlægilegt að gera svona litlar umbætur á jafnstórum lagabálk og búnaðarlöggjöfin er. Búnaðarlöggjöfin er reyndar í mörgum atriðum úrelt orðin og illa við hana unandi. Hún þarf því endurskoðunar við, og það sem fyrst. Eg mun því bera upp þingaályktunartillögu einhvern næsta daga um, annaðhvort að fela stjórninni að undirbúa málið til næsta þings, eða þá að skipa milliþinganefnd í það.

Síðan að málið fór til efri deildar, hefi eg lesið ritgerð eftir Pál heitinn Briem amtmann, í »Lögfræðingi«. Hann er á sömu skoðun sem eg um það, að jarðeigendur ættu að eiga húsin á sínum eigin jörðum. Eg hafði ekkert fyrir mig að bera, þegar málið var fyrst hér til meðferðar í deildinni annað en mitt eigið hyggjuvit og það sem mér fanst sanngjarnast og réttast. Páll segir í ritgerð sinni, að ákvæði þessa efnis hafi staðið í Grágás, og sama ákvæði hafi líka staðið í Jónsbók, alt þangað til konungarnir tóku að senda hingað upp menn, til að beita órétti, stela gulli, grip um kirknanna, fleka menn af landi burt, eins og t. d. Ögmund biskup Pálsson. Þessum útlendu ræningjum þótti of dýrt að við halda sjálfir húsunum á jörðum, þeim sem þeir höfðu náð í með alls konar vélum, og því var tilskipun um þetta efni gefin út 1622, og leiguliðunum gert að skyldu að útvega sér sjálfir húsaskjól. Þetta er ekki talað út í loftið. Í ritgerð Pála er alstaðar vitnað í umgetnar lagagreinar.

Þessa vildi eg láta getið, til þess að styðja rök, þau sem eg færði fyrir máli mínu, þegar þetta var fyrst til meðferðar hér í deildinni. Af þessu er eg nú hefi sagt, er auðsætt, að það er ekki ástæðulaust þó eg beri fram þessa þingsályktunartillögu, sem eg gat um, með hvaða hætti sem hún verður, hvort sem að lagt verður til að vísa málinu til stjórnarinnar eða skipa í það milliþinganefnd.