08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í C-deild Alþingistíðinda. (1467)

93. mál, hallærisvarnir

Tryggvi Bjarnason:

Það hefir verið tekið heldur mjúkum höndum á þessu máli hér í deildinni og það jafnvel af andstæðingum frumvarpsins. Þeir telja það í raun og veru gott: og hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði við 2. umr., að það væri fögur hugsjón, sem vekti fyrir flytjendum málsins. Eg get nú ekki vel samrýmt þetta tvent, að álíta málið gott, en styðja frumvarpið ekki.

Ein mótbára móti frv. er sú, að hættan á fóðurskorti og þar af leiðandi bjargarskorti sé mikið minni nú en áður. Hefir í því efni verið bent á það, að nú séu komin hraðskreið gufuskip í stað seglskipa, og eins það, að hægt væri að kalla á hjálp í simanum, ef þörf krefðist. Það er nú svo. Það er nokkuð seint að kalla á hjálp, þegar hafís er búinn að loka leið að hálfu landinu. Eg veit ekki, á hvern hátt hjálpin ætti þá að koma, því illa mun ganga að senda fóður og matvörur með simanum frá auða sjónum í þá hluta landsins, sem luktir eru ís.

Einnig hefir verið bent á það, að hættan væri mest á Norðurlandi. Háttv. 1. þm. Rvk. hefir bent á það þrautaráð, að þá mætti flytja fóður og matvöru landveg úr Borgarnesi norður í land. En jafnskarpskygn maður og hann er, hlýtur að sjá það við nánari íhugun, að þetta er ómögulegt Ef um fóðurskort er að ræða, þá mundi ekki duga neitt smáræði. Jafnvel heili skipsfarmur mundi tæplega nægja. Til þess að flytja kornmat, sem að nokkru haldi kæmi, þyrfti því mörg hundruð hesta. Jafnvel þótt færðin væri svo, að yfirferð væri möguleg, yrði þetta samt óframkvæmanlegt. Í fyrsta lagi af því, að þegar fóðurskortur er fyrir hendi, þá verða menn auðvitað að draga af við skepnurnar og verða þær því óhraustari og lítt færar til langferða á vetrardegi og um torfærur. Og í öðru lagi af því, að illhægt eða allsendis ómögulegt mundi vera að útvega fóður og húsaskjól á leiðinni fyrir alla þessa hesta. Fóðrið mætti kannske ná í, en þá með þeim einum kostum að borga með fóðri þegar þeir kæmu aftur og því held eg að fóðurbaggarnir væru farnir að léttast, þegar lestin kæmi norður, t.d. norður í Skagafjarðar og Eyjafjarðar sýslur. Hættan segja menn að sé mest á Norðurlandi vegna þess að is geti lokað þar höfnum. Það er satt, að þessu leyti er hún meiri þar en á Suðurlandi, en þó held eg að jafn-víst sé, að áhrifin af ísnum nái til alls landsins og ekki minna til Suðurlanda, að minsta kosti í sumum ísárum, eða svo virðist það vera.

Það er sagt í »Fregnum frá Íslandi«, að árið 1882 hafi fellir orðið skæðastur í Snæfellanesa- og Hnappadals-, Dala-, Mýra-, Borgarfjarðar- og Kjósarsýslu. Talsvert mikill hafi hann verið í Stranda-, Rangárvalla-, Skaftafells-, Ísafjarðar- og Barðastranda-sýslu, en á Norður og Austuramtinu hafi hann verið mikið minni, Víðast ekki orðið annað að en lambafellir. Í Rangárvallasýslu féll fjöldi fjár í sandroki, sem þá var eftir páskana. Í þeirri sömu hríð var rekið 1400 fjár á afrétt Árnesinga. En þegar hríðinni slotaði, voru að eins 100 á lífi og illa haldið. Þetta vonda hríðarkast, sem stafaði af ísnum, náði því einnig til Suðurlands og varð þar til stórtjóns. Það er ekki til yfirlit yfir fellinn frá 1882, nema í nokkrum sýslum — á svæðinu frá Skarðsheiði og Oki til Gilsfjarðar og Kjósar- og Gullbringusýslu. Á svæðinu frá Skarðsheiði og Oki til Gilsfjarðar féllu 12100 ær, 3750 geldfé, 10200 gemlingar, 136 kýr, 1300 hross og 16400 unglömb. Eftir verðinu, sem þá var á peningi, var skaðinn metinn 480 þús. kr. Ef sama kæmi fyrir nú, yrði skaðinn talsvert meiri, vegna þess, hve peningur hefir hækkað í verði. Sé ærin metin á 18 kr., geldfé á 15 kr. hver kind, gemlingar á 12 kr., lömb á 8 kr., kýr á 100 kr. og hross á 60 kr. (Verðið set eg svona lágt vegna þess að margt af þeim hrossum, sem fórust, voru tryppi), þá yrði skaðinn nú 619,280 kr. Og þetta er heldur lágt reiknað eftir gangverði því sem nú er á fé. Lægsta verð fyrir ær mun nú vera 20 kr., en þær hafa komist upp í 24–26 kr., t.d. á uppboðum og jafnvel þess utan.

Í Kjósarsýslu fórst 1885 af afleiðingum þessa hallæris 1500 fjár alls. Sé meðalverð reiknað 15 kr., verður það 22500 kr. Ennfremur fórust þar 1000 lömb, sem eg reikna á 8 kr. hvert og 110 hross á 60 kr. hvert, sem gerir 14600 kr. Verður þá skaðinn allur í þeirri sýslu 36,600 kr. Þetta eru nokkuð ægilegar tölur. Og eg skil ekki í öðru en að þeim mönnum muni ofbjóða þessi skattur, sem sjá eftir örlitlum skatti eða kinnoka sér við að leggja ofurlítinn skatt á þjóðina, sem ætti að geta komið í veg fyrir að slíkt endurtækist. Svo kom eftir þetta harða vor kalt sumar og varð að farga miklu af því litla, sem eftir var af búpeningnum. Bjargráðavandræðum er sagt að hafi ekki kveðið mikið að, nema í Kjósar- og Gullbringu. sýslu. Sú sýsla varð 1885 að taka 20 þús. kr. lán til þess að verja menn hungri. Það er sagt að jafnvel hafi séð á fólki í þeirri sýslu. Og þetta hélzt fram til 188i. Það er nú auðsætt hvílíkt stórtjón það getur gert þjóðinni, ef þetta kemur fyrir aftur, sem vel getur orðið. Og mig furðar á því, að þeir menn sem hér sitja og muna þessi ár, skuli geta lagst á móti þessu frv.

Þeir segja, að við séum betur búnir undir harðæri nú. En eg hygg, að það sé öðru nær. Svo er því að minsta kosti farið á Norðurlandi, að þar er mikið meiri hætta á kornskorti nú en áður. Meðan seglskipin voru í förum og þeirra var ekki von fyr en í Maímánuði, þá keptust bæði verzlanir og bændur við að birgja sig upp til þess tíma að von var skipanna. En síðan gufuskip komu og ferðirnar urðu tíðari — 2–3 á vetri — þá leggja menn ekki eins mikla áherzlu á að birgja sig svo upp að haustinu að þeir komist af til vordaga, en láta það slampast af og reyna, hvort komi fyrr, skipið eða ísinn. Menn hafa hingað til verið svo hepnir, að skipið hefir orðið á undan, en ekki er sagt, hve lengi það Verður. Það getur orðið öfugt. Eg man eftir því 1902, að þá var Húnaflói orðinn fullur af ís eftir miðjan febrúarmánuð. Hefði skipinu seinkað, þótt ekki hefði verið nema örfáa daga, þá hefði ísinn orðið á undan og vandræði staðið fyrir dyrum.

Einnig hefir því verið haldið fram, að sjávarútvegurinn standi nú á fastari fótum en áður og minni hætta sé á aflaleysi. Þetta held eg að sé nokkuð mikil missýning. Greindur og glöggur maður af Ísafirði sagði mér það, að ef annað eins ár hefði komið aftur eins og árið í fyrra, hefði fjöldi manna óumflýjanlega flosnað upp og orðið að flytja burtu. Eg hygg, að það hafi verið svo lengi og sé enn í fjölda veiðistöðva, jafnvel í inum beztu, að bregðist ein vertíð, komast menn í miklar kröggur og sé aflaleysi lengri tíma, þá flosnar fjöldi inna fátækari fjölskyldumanna upp, líða skort og fara að lokum á sveitina. Við vitum það líka allir, að með vaxandi vel megun til lands og sjávar vaxa kröfurnar að sama skapi og eyðslan svo mjög, að ekki þurfa að koma fyrir nema litlar misfellur, svo að menn þoli þær mikið ver en áður. Menn eru miklu viðkvæmari fyrir öllu slíku en áður var, sem kemur líka meðal annars til af því, að menn kosta miklu meira til framleiðslunnar, en áður var. Raunar mun botnvörpuútvegurinn vera nokkurn veginn ábyggilegur, en þá þarf ekki mikið út af bera þar, vegna þess, hve útvegurinn er dýr. Og botnvörpungar eru ekki til nema á örfáum stöðum — aðallega hér í Reykjavík og eru þar í fárra manna höndum. Líka ber þess að gæta, að þeir. hafa mikinn hluta árs verið veiðum fyrir Norðurlandi, því þar telja þeir sér veiðina arðmesta að sumrinu Við síldveiðina. En sé allur sjór þar þakin ís, þá geta þeir ekki leitað þangað. Raunar er ekki þar með sagt, að þeir geti ekki borið sig, en ólíklegt er að þeir leiti norður vegna annars en þess, að þeir telja sér það arðvænlegast — en arðurinn verður þá minni.

Mér þykir leitt, að jafngott frumv. og þetta hefir ekki fengið betri byr en raun er á orðin. Það var að eins samþykt með litlum atkvæðamun við 2. umr. Helzt hefði eg kosið, að það gengi fram óbreytt, en nefndin hefir nú komið fram með brtill., sem gera tillögin nokkuð minni, en það mun vera gert til þess, að menn fáist fremur til að fallast á það. Og þótt eg kysi helzt, að það yrði samþykt óbreytt, þá kýs eg samt heldur að samþykkja brtill., en málið nái ekki fram að ganga.

Ýmsir eru þeir, sem halda því fram, að ekki sé rétt að leggja svona skatt á þjóðina, án þess að bera málið undir hana áður. En eg hika ekki við að greiða því atkvæði, þótt það hafi ekki verið gert. Eg er nefnilega visa um, að allur fjöldi hugsandi manna tekur málinu vel og sér nauðsynina á því, að tryggja okkur betur en áður gagnvart harðindum. Og þótt eg kynni — sem eg óttast ekki — að mæta einhverju aðkasti hjá kjósendum mínum fyrir það, að greiða þessu máli atkvæði, þá læt eg mér það í léttu rúmi liggja, þar sem eg veit, hve bráðnauðsynlegt þjóðþrifamál þetta er, og eg er viss um, að þeir sem ekki láta sannfærast nú, þeir sannfærast síðar um nauðsyn þessa máls.