09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (147)

39. mál, skipun læknishéraða

Jón Magnússon:

Eg bjóst varla við, að háttv. þm. Snæf. (H. St.) styddi að því að setja þetta mál í nefnd. Eg ímyndaði mér, að hann væri svo kunnugur, að hann vissi, að engin von er um að fá lækni í þetta hérað. Læknirinn, sem var þar áður, fór þaðan af því að hann hafði þar svo að segja ekkert að gera, og þar af leiðandi sama sem engar aukatekjur. Treystist hann því ekki til að komast þar af, og er þetta þó mjög nýtur læknir. Mig furðar á því, að menn skuli vera að hugsa til að stofna ný læknishéruð meðan hrein vandræði eru eru að fá lækna í þau héruð, sem þegar eru stofnuð. Nú eru laus eða sama sem laus 7 læknishéruð, og engi von um að fáist í ár meira en tveir nýir læknar. Meðal lausra læknahéraða eru Hróarstunguhérað og Axafjarðarhérað, þar sem þó allir viðurkenna að þörfin sé mikil. Dalahérað er nú að losna, og hefir verið talað um að skifta því í tvent. Væri það gert mundi Dalasýsla líklega verða læknislaus. Ef fara ætti að óskum landsmanna um að stofna ný læknishéruð, þá þyrfti um leið að bæta kjör lækna, svo að héraðslæknisembættin þætti aðgengileg.

Það er spá mín, að þótt þetta frv. næði fram að ganga, þá mundi héraðsbúar engu verða bættari.