08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í C-deild Alþingistíðinda. (1473)

93. mál, hallærisvarnir

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Þessar mótbárur, sem síðast hafa komið fram, eru aðallega um það, að ekki sé nein þörf á bjargráðasjóði til tryggingar atvinnuvegum landsmanna gegn áföllum af völdum náttúrunnar. Þessar mótbárur eru sumpart bygðar á því, að ekki sé eins mikil hætta á, hallæri nú og áður, og sumpart á því að málið sé ekki nógu vel undirbúið.

Eg skal játa það með háttv. þm. Snæf. (H. St.), að ein tegund hallæris, sem áður hefir orðið mönnum að miklu meini, nefnilega drepsóttirnar, er ekki eins hættuleg nú og áður, og stafar það af betri læknaskipun og fullkomnari sóttvarnarráðstöfunum, og síðast en ekki sízt af því, að nú eru í öðrum löndum gerðar miklu meiri og betri ráðstafanir gegn því, að drepsóttir breiðist út. En þó að þessi tegund af hallærishættu sé minni nú eti áður, þá er þó ein tegundin, sem alt af hefir verið og er enn jafnhættuleg, nefnilega hættan af hafis. Og það er aðgætandi að hallæri af hafís verkar ekki aðeins á einn hluta landsins, þann hluta sem hafisinn lokar, heldur allt landið í heild sinni. Eins reynslan hefir sýnt, þá hafa oftlega orðið stórkostleg vandræði af hafíssveðráttu á öðrum stöðum, en þeim sem voru lokaðir inni af ísnum, svo að skipagöngur teptust. En geta verið fleiri hættur sem yfir vofa. Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) gerði reyndar lítið úr öðrum hættum en þeim, sem stöfuðu af hafís. En nú hefir háttv. þm. S.-Múl. (J.Ól.) nýlega bent á eina tegund hallæris, sem mikil hætta stafar af, þeirri tegund hallæris, sem stafaði af atvinnubresti. Þessi tegund hallæris er að því leyti miklu hættulegri en allar aðrar, að mest brögð geta orðið að atvinnubresti, þar sem flest fólk er saman komið; og þá einkum í kaupstöðum og sjávarþefnum Þetta hallæri getur stafað af ýmsum ástæðum, t.d. af skipsköðum eða langvinnu aflaleysi. Mörg dæmi eru til þess að fjöldi manna hafi druknað í einu svo að þau sveitarfélög, sem fyrir því hafa orðið, hafa lengi verið að ná sér aftur, og langvinnu aflaleysi getur margt valdið. Og þó menn hafi betri útveg nú til þess að sækja út á miðin í kringum landið til þess að fiska, þá getur samt orðið misbrestur á fiskiveiðunum fyrir því. Og hver kann að segja það, að það verði ekki einmitt höfuðstaður landsins og fólksflesti bærinn, Reykjavík, sem er mest hætta búin af þessu? Menn geta gert sér vonir um að þessi tegund hallæris komi ekki, en enginn getur staðhæft það, að hún geti ekki komið.

Háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) og háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) lögðu mesta áherzlu á, að fresta málinu og fela það stjórninni að undirbúa það undir næsta þing. Það er nú gott og gott ekki, að draga það á langinn, sem hægt er að gera nú. Yfirleitt er ekki gott að fresta því til morguns, sem hægt er að gera í dag.

Því hefir ekki verið neitað, að hér væri um þarft mál að ræða, og því síður hefir nokkur sýnt fram á það með rökum, að fullgild ástæða væri til þess að fresta því. Enginn okkar á það víst, að eiga atkvæði um málið á næsta þingi eða næstu þingum, eða geta stutt það þá Þeir sem vilja málinu vel, eiga því ekki að draga sig í hlé að styðja það nú. Nei, því sannarlega er þetta mál búið að dragast alt of lengi, ekki að eins um nokkur ár, heldur um fleiri aldir. Þetta hefði átt að vera búið að gera fyrir mörgum öldum síðan. Þá hefði að ýmsu leyti verið öðruvís um horfs hér á landi en nú.

Þegar Íslendingar byrjuðu að setja sér sjálfir skattalög til landsþarfa með tíundarstatúta Gissurs byskups árið 1096, þá skiftu þeir niður tekjunum í 4 flokka, biskupstíund, preststíund, kirkjutíund og fátækratíund. Ef menn þá hefðu bætt við 5. flokkinum, gjaldi til, þess að fyrirbyggja hallæri, þá væru aðrar horfur en nú eru.

Þessi mótbára, að málið sé óundirbúið, er á engum rökum bygð. Það má alt af slá slíku fram, en það verður tæpast sagt um þetta mál með sanni. Á seinni tímum hefir þetta mál verið rætt allítarlega. Þó ekki hafi veriðákveðið neitt um það, hvernig því yrði komið í sem bezt horf, eða með öðrum orðum, hverja aðferð væri tiltækilegt að hafa til að koma því á góðan rekspöl. Jafnvel andstæðingar málsins þora ekki að staðhæfa, að þessi aðferð, sem hafin er með því frumv., sem fyrir liggur um stofnun bjargráðasjóða, sé skökk, og því er líka ástæðulaust að fresta því. Það hefir verið stungið upp á því, að vísa málinu til stjórnarinnar. Hvaða líkindi eru fyrir því, að stjórnin hafi hér fremur ráð undir rifi hverju, heldur en þingmennirnir, sem þjóðin kýs til að ráða sínum ráðum? Og þó að það sé góð regla að leggja ekki skatt á þjóðina að henni fornspurðri, þá get eg ekki viðurkent, að þetta tryggingargjald, sem hér er um að ræða, sé skattur í eiginlegri merkingu, þar sem iðgjöldin til sjóðsins eiga að greiðast af þeim sem eiga að njóta þeirra. Þetta fé er ekki heldur neitt eyðslufé, heldur þvert á móti ætlað til þess að það sé geymt, safnað i sjóð og ávaxtað þangað til þörf er á að grípa til þess. Það mætti með jafnmiklum rétti segja, að bera ætti undir þjóðina allar stærri fjárveitingar úr landssjóði. Og þó er það jafnaðarlega látið undir höfuð leggjast. Þegar hv. 2. þm. Rang. (E. P.) fór fram á það við stjórnina, að hún veitti kjördæmi hana vaxtalaust lán úr landssjóði að upphæð 25,000 kr., til þess að bæta kjör manna og hjálpa þeim eftir landsskjálftana síðustu, þá talaði háttv. þingm. ekkert um það, að það ætti að bera það fyrst undir þjóðina. Nei, hann beið ekki einu sinni eftir því með málaleitunina, að þingið kæmi saman. Þetta fé var veitt af því að knýjandi nauðsyn bar til. Þetta var og rétt og sjálfsagt, en betra hefði verið að Sýslufélagið hefði átt sérstakan hjálpssjóð, svo að ekki hefði þurft að leita til landasjóða. Því að það má lita svo á, að það að veita vaxtalaust lán úr landssjóði, sé að leggja óbeinlínis skatt á þjóðina. Nefndin getur því ekki fallist á, að það sé nein knýjandi ástæða til þess að fresta málinu nú, heldur sé rétt að leiða það til lykta. En komi það í ljós við reynsluna, að á því sé einhver agnhnúi, er jafnan innan handar að laga það síðar.