10.07.1913
Efri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

45. mál, friðun fugla

Flutningsmaður, Björn Þorláksson:

Eins og þetta frumvarp ber með sjer, fer það aðeins fram á lítilfjörlega breyting, eða að gera ofurlítinn viðauka við núgildandi lög um friðun fugla á þann hátt, að rjúpan, sem nú er aðeins friðuð nokkurn hluta árs, verði friðuð alt árið, næstu 5 árin. Ástæðan til þess, að vjer flutningsmenn höfum leyft okkur að koma fram með þetta frv., er aðallega sú, að orð leikur á því, að rjúpan fækki óðum, og sumum þykir alt útlit á, að hún hverfi með öllu, ef haldið verður áfram að skjóta hana árlega, og —hún verður ekki algerlega friðuð um stund. Að líkindum eru fleiri orsakir til fækkunarinnar, en skotin; t. d. það, að hún fjell mjög eitt árið, og hefur ekki náð sjer síðan, og nú er mjög lítið um þennan fugl á Austfjörðum, þar sem jeg er kunnugur.

Jeg skal geta þess, að ýmsir hafa allálitlega atvinnu af rjúpnaveiðum, og leggja rjúpur inn í verzlanir fyrir svo hundruðum króna skiftir á ári. Jeg get því ímyndað mjer, að sumir mundu verða allóánægðir yfir lögum þessum. En jeg hygg, ef rjúpan yrði alfriðuð þann tíma, er hjer er farið fram á, að það mundi nægja til þess, að hún fjölgaði aftur, og þessi atvinnugrein mundi þá aftur rísa úr dvala.

Eins og jeg tók fram, er hjer aðeins að ræða um viðauka við Iög um friðun fugla. En það ætti ef til vill að friða fleiri fugla á líkan hátt, t. d. álftina, þó að hjer sje ekki í farið fram á það. Væri því nauðsynlegt, að skipa nefnd í málið. Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið nú, en leyfi mjer að síðustu að stinga upp á 3 manna nefnd.