10.07.1913
Efri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

45. mál, friðun fugla

Júlíus Havsteen:

Það er ef til vill nokkuð snemt að tala ítarlega um frumvarpið á þessu stigi málsins, en það sem jeg segi, kynni þó að hafa einhver áhrif á nefndina, sem væntanlega verður skipuð í það.

Jeg sje enga nauðsyn á að friða rjúpuna meira en nú er gert með lögum. Þó að rjúpan fækki í bili, tel jeg það enga sönnun þess, að hún sje að hverfa. Það hefur oft verið sagt áður, að nú væri rjúpan að hverfa, nú væri hún alveg farin og kæmi aldrei aftur. 1887 kom fram hjer á þingi frumv. um útflutningsgjald af rjúpum. Það var samþykt í neðri deild, en felt án umtals hjer í efri deild með 9 atkv. gegn 2. 7 árum seinna var borið fram frumvarp viðvíkjandi eitrun rjúpna, er ekki náði fram að ganga, af því menn vildu eigi spilla þeim atvinnuvegi, sem fólginn er í því að skjóta og veiða rjúpur. Og jeg hef enn ekki heyrt færðar neinar sannanir fyrir því, að nauðsyn sje á þeim friðunarlögum, sem háttv. flutningsmenn flytja fram. Það er mjög erfitt, að vita með vissu, hvort rjúpan fækkar eða ekki. Það er komið undir veðráttunni, hve mikið næst í af henni. Það kom til mín bóndi úr Mýrasýslu í vor og sagði mjer, að hann hefði haft 100 kr. tekjur af rjúpnaveiðum nú á síðastliðnum vetri. Það er ísjárvert, að eyða þessum tekjum manna, eða leggja haft á góða atvinnu, sem sjerstaklega tíðkast í sveitum, þar sem á hinn bóginn er síður tækifæri til þess að vinna sjer eitthvað inn við tækifæri, en við sjávarsíðuna, eða í kaupstöðnm og verzlunarstöðum. Þetta frumvarp gengur og of nærri atvinnufrelsi manna, ef það verður að lögum. Og það hefur verið gengið of langt út í það á seinni árum, að setja lög og reglur um aðgang manna að atvinnu.

Það er, eins og jeg sagði, erfitt að vita, hve mikið er til af rjúpunni. Jeg hef rannsakað skýrslur um útflutning á rjúpum síðustu árin, og á árunum 1906–1910 hafa verið útfluttar 110 þús. rjúpur að meðaltali á ári. Það er ekki lítið fje, sem þennan veg kemur inn í landið, og það er varlega í það farandi, að svifta menn þessum tekjum.

Það getur verið, að einhver segi, að mótmæli mín gegn frv. spretti af því, að mjer þyki rjúpur svo mikið góðgæti. En jeg hef á síðastliðnum vetri ekki haft rjúpur nema einu sinni á borði mínu, því að þær gerast nú mjög dýr fæða. Og mjer þykir það mjög gleðilegt, að þær eru í svo háu verði. Það sýnir, að sumir menn hafa allálitlega atvinnu af rjúpnaveiðum, og það á ekki að takmarka atvinnu manna nema knýjandi nauðsyn sje fyrir hendi.

Jeg get því, af ofangreindum ástæðum. alls eigi greitt frumv. atkvæði.