10.07.1913
Efri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

45. mál, friðun fugla

Jósef Björnsson:

Jeg stend upp í tilefni af ræðu háttv.1. kgk. þm. (J. H.) Hann sagði, að með þessu frv. ætti að takmarka atvinnu manna. En tilgangur frv, er einmitt að tryggja, að Iandsmenn geti haldið áfram að hafa atvinnu af rjúpnaveiðum. Ef það er rjett, sem við flm. höldum fram, að rjúpan fækki, þá getur farið svo, að hún hverfi með öllu, sje hún ekki friðuð frekar en nú er. Þessu viljum við afstýra með því að friða rjúpuna um nokkurt ára bil, eins og ákveðið er í frumvarpi okkar. Við viljum fara að eins og bændur eftir harðindaár, er skepnum hefur fækkað. Þeir láta búfjeð lifa, svo að bústofninn aukist, og fjenu fjölgi aftur, því það er þeim atvinnu- og hagnaðarauki. Þetta er hugsun okkar flutningsmanna. Við viljum fjölga rjúpunum til hagnaðar fyrir landsmenn.

Það getur, ef til vill, verið álitamál, hvort rjúpum fækki. En jeg verð að taka undir það með háttv, samflutningsmanni mínum, að raddir hafa heyrzt víðsvegar að um það, að látlaus skot hafi fækkað henni afarmikið, svo að vart sjáist rjúpa þar, sem áður var mikið af henni, og mjer finst ekki hægt að gefa slíku engan gaum. Hitt er annað mál, að það geta ýmsar leiðir komið til skoðunar, er tryggja á, að rjúpan gangi ekki til þurðar. Það má alfriða hana nokkur ár, eins og hjer er farið fram á. Það er og hugsanlegt — og jeg vill vekja athygli nefndarinnar, sem jeg vona að verði kosin í málið, þrátt fyrir andmæli háttv. 1. kgk. þm., á því — að nægilegt væri að friða hana fyrir skotum, en þá mætti veiða hana á annan hátt, snara hana eins og hjer tíðkaðist áður, og enn tiðkast í Noregi. Snaraðar rjúpur eru líka í hærra verði en skotnar rjúpur, og má því vel vera, að sú veiðiaðferð verði tekin upp aftur, þegar fram líða stundir.

Það er engin ástæða til að drepa þetta frv. nú, þótt eitthvert frv. um sama efni væri felt fyrir mörgum árum hjer í deild inni, eins og háttv. 1. kgk. þm. mintist á, ekki sízt er líta mátti svo á, sem það frv. væri verndartollslagafrumvarp, svo að rjúpur yrðu hjer í Rvík ódýrari en ella mundi.

Jeg styð tillögu háttv. aðalflutningsmanns um nefnd.