13.07.1913
Efri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

46. mál, veiði á Íslandi

Flutningsmaðnr Björn Þorláksson:

Það er sama að segja um þetta frumv. og frumvarpið næst á undan, að það miðar að því, að styðja stóran atvinnuveg í landinu, og það er stærri atvinnugrein, sem hjer ræðir um, heldur en í hinu frumvarpinu.

Eins og kunnugt er, hafa einstakir menn haft allálitlegar tekjur af æðarfuglarækt, þó að ekki verði sagt, að almenningur hafi haft það. Til að vernda þessa atvinnugrein voru lög samin fyrir 60 árum, en seinna hefur verið hert á ákvæðum þeirra laga. Samkvæmt gildandi lögum er ekki aðeins bannað að skjóta æðarfugl, heldur líka að selja og kaupa eggin. Nú heyrast almennar kvartanir um það, að þessum ákvæðum, þar sem bannað er að skjóta fuglinn, sje eigi hlýtt. Það er sagt, að hann sje skotinn um land alt, þar sem til sést, nema rjett við vörpin.

Sú breyting, sem farið er fram á í þessu frv., er eigi stórkostleg. Eins og jeg gat um, eru nú kaup og sala á æðareggjum bönnuð. En það leikur orð á því, að menn gefi þau gegn gjöfum eða selji þau jafnvel í laumi. Það gefur nú að skilja, að öll eggjataka er hættuleg. Það er auðsætt, að enginn fugl kemur úr því eggi, sem tekið er, og að eggjatakan er því hættuleg æðarfuglsræktinni. Það er og ótrúlega lítið, sem útfluttur dúnn vex. Jeg hef litið í Landshagsskýrslurnar til að kynnast þessu. Nú seinast munu það hafa verið um 19 þús. pund, er flutt voru út á ári, en fyrir mörgum árum voru það 6–7 þúsund. Þetta eru því furðu litlar framfarir, sem verða í þessari arðsömu atvinnugrein. Óefað stafar þetta af því, hve lítið er hirt um, að lögunum um bann gegn æðarfuglaskoti sje hlýtt.

Jeg hef heyrt marga segja, að það væri hart, að banna mönnum að skjóta æðarfugla, þar sem varpeigendur eyddu mest fuglinum sjálfir með eggjatökunni, og mjer finst mikið til í þessu. Þetta frv. fer ekki fram á annað en það, að eigi megi láta egg af hendi til annara.

Eg vona, að nefnd verði kosin í þetta mál. Það væri æskilegt, að sú nefnd Ijeti safna í eina heild öllum þeim ákvæðum, sem til eru um verndun æðarfugla. Þau ætti að láta prenta, senda þau síðan út um land, svo að almenningur sæi, að þessi lög væri þó enn í gildi. Jeg hygg, að þetta yrði til að minka dráp á æðarfuglum, sem gengur úr hófi fram, landinu til stórskammar og stórskaða.