09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (154)

40. mál, hagur Landsbankans

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Vér flutningsmenn höfum hér leyft okkur að koma fram með þingsályktunartill. þessa, til þess að íhugað verði hvað unt er að gera fyrir Landabankann og Veðdeildina. Það hefir ekki þótt ástæða til þess, að koma nú beint fram með sérstakt frumv. af bankans hálfu, heldur að fela þinginu að ráða fram úr hvernig bezt ætti að sjá hag hans borgið, samkvæmt þeim upplýsingum, sem væntanleg nefnd útvegaði sér og við getum gefið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve brýn nauðsyn er á því, að veltufé bankans verði aukið, þar sem það hefir verið óbreytt alla tíð, að kalla má, síð 1885. Að vísu var bætt seðlum við stofnféð, svo að það varð 750,000 kr., en við það hefir líka setið. Síðan hefir atvinnuvegum fjölgað í landinu og þeir vagið óðfluga, en fátækt land, sem er í framþróun þarf einmitt peninga og lánstraust, annars hætta framfarirnar. Það mundi nú margur halda, að stofnféð, þessi 3/4 milj. kr., hefði getað verið í veltu, og hefði eigi mátt minna vera, og að það hefði verið kvaðalaust. En því fór þó fjarri. Alt féð er nú í konunglegum “obligationum„, í stað þess að vera veltufé, en vextir af þeim ekki nema 31/2 %. Auk þess leggst á 2% skattgjald, og ennfremur kostnaður við flutning frá Danmörku, rentur og “Provision„, er samtala verður 1/4% af seðlafúlgunni allri, sem flutningur seðlanna hefir í för með sér milli landa. Hagur bankans af seðlunum gat því ekki orðið nema um 9 þúsund kr. á ári, í staðinn fyrir um 46 þús., hefði seðlaupphæðin verið kvaðalaus, og ekkert hefir hann haft til að verzla með nema lánafé. Hann hefir fengið 2 milj. kr. að láni, og af því á nú að fara að borga á næstu árum 100 þús. kr. á ári, og sömu upphæð á hverju ári úr því. Þess vegna verður að auka veltuféð, ef bankinn á að geta komið að nokkru gagni framvegis. Samkv. reglugerð á nú bankinn að hafa í verðbréfum um 1/2 milj. krónur í veði fyrir veðdeildum og annað eins fyrir sparsjóðnum. Þetta er in upphaflega stofnfjár-upphæð tvöfölduð, og er það tilfinnanlegur baggi, ef landsjóður leggur ekki fram fé.

Annars ætti eg ekki að þurfa að hafa mörg orð um þetta nú, með því að bankastjórnin hefir þegar í vetur sem leið séð fyrir því að semja skýrslu um alt ástand bankans og senda hana öllum þingmönnum. — Allir kannast við, að atvinnuvegirnir séu að vaga og þurfi stuðnings við, og til þess liggur ekki önnur greiðari leið en efling Landsbankans.

Eg sagði áðan, að hér lægi ekki fyrir beinar tillögur frá bankanum, en samt sem áður eru til fleiri en eitt frumvarp um þetta efni og má ráðgast um þau við væntanlega nefnd, þegar þar að kemur.

Því er nú svo farið, að forlög Landsbankans eru eigi einungis háð þinginu. — Eg efast ekki um að það bæði vill honum vel og gerir það sem það getur honum í hag. En forlög hans eru einnig háð hverri stjórn, er að völdum situr, og það ríður ekki ekki minna á því, að hún sé samtaka þinginu í því, að útvega honum sem mestan stuðning.

Nú sem stendur er afarörðugt að útvega fé. Vextir eru háir og fara hækkandi. Vér höfum beðið of lengi með það, að bæta kjör Landabankans, því að það er ekki sennilegt, að betri tækifæri bjóðist á næstu árum, en verið hafa undanfarin ár. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Vér verðum að taka því, sem heimurinn hefir að bjóða í framtíðinni.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, þareð ekkert frumvarp liggur enn fyrir, og málið svo einfalt sem það er. Eg legg að eins til að 5 manna nefnd verði skipuð, og mun eg svo láta henni í té þær tillögur, sem Landsbankinn álítur tiltækilegastar og þegar hefir verið gert uppkast að.