15.07.1913
Efri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

34. mál, lán til byggingar íbúðarhúsa á prestssetrum landsins

Einar Jónsson, framsögum. Nefndin í máli þessu hefur leyft sjer að koma fram með tvær brtill. við frv. Fyrri brtill. byggist á athugasemd, sem kom fram við 2. umr. um að nefna í 4. gr. hús byggð úr steini og steinsteypu jafnhliða járnvörðum timburhúsum. Síðari brtill. er að eins komin fram af því, að ef brtill. sú, sem við umr. var samþykt við 8. gr. laganna, væri sett inn í greinina, þá yrði orðalag hennar óviðkunnanlegt. Nefndin leggur því til, að allur síðari hluti 8. gr. sje lagaður í samræmi við þá breytingu, sem á greininni var gerð við að 2. umr.; vonar hún, að brtill. muni ekki sæta neinum mótmælum, því hjer er ekki um efnisbreyting að ræða. Þá kem jeg að brtill. á þgskj. 76, þar sem farið er fram á að lækka hámark hverrar lánveitingar úr 5000 kr. ofan í 4000 kr. Eins og jeg gat um síðast, getur nefndin ekki fallizt á þessa brtill. Vjer lítum svo á, að vönduð hús úr steini eða steinsteypu verði varla bygð fyrir 5000 kr. og því síður fyrir minna fje. Jeg þekki dæmi til þess, að bóndi á Fljótsdalshjeraði hefur bygt slíkt hús, sem kostað hefur 8000 kr., og þó verður ekki með sanni sagt um það, að ofmikið sje í það borið, heldur samsvarar það hjerumbil þeim húsum, sem ætlazt er til að bygð sjeu fyrir lánsfjeð á prestssetrunum, og er vel vandað eins og þau eiga að vera.

Það sýnist ósanngjarnt, að gera þeim, sem byggir, erfiðara fyrir en eftirmönnum þeirra, með því að ætlast til, að þeir leggi svo og svo mikið til byggingarinnar frá sjálfum sjer, ofan á alla þá erfiðleika og umstang, sem sjálf húsbyggingin hefur í för með sjer. Eftirmaðurinn er þó laus við öll þau óþægindi; á hann legst eigi annað en að greiða vexti og afborganir af því, sem eftir kann að verða óborgað af láninu, þegar hann tekur við og svo að halda við húsinu.