15.07.1913
Efri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

34. mál, lán til byggingar íbúðarhúsa á prestssetrum landsins

Þórarinn Jónsson:

Jeg get verið stuttorður um brtl. mína, því að jeg gerði grein fyrir henni við 2. umr. Við atkvæðagreiðsluna við þá umræðu sá jeg, að ekki mundi til neins að færa hverja einstaka lánsupphæð niður í 3000 kr., þótt jeg hefði helzt kosið það, og hef því orðið að sætta mig við, að bera upp tillögu um, að hún yrði 4000 kr. Hv. frsm. heldur því fram, að steinhús verði ekki bygð fyrir 5000 kr., og kveðst vita til þess, að bændur hafi bygt miklu dýrari hús á jörðum sínum. Jeg veit það, að fyrir getur það komið, að efnabændur leiki sjer að því, að byggja dýrari hús á jörðum sínum, en jörðinni hæfir. Það er í sjálfu sjer ekki vítavert, ei þeir hafa efni á því, en það er ekki eftirbreytnisvert, þar sem efni eru af skornum skamti.

Þess er að gæta, að á prestssetrunum er jafnan meira eða minna fyrir af húsum, og getur efnið úr þeim munað drjúgum í nýju bygginguna; svo að presturinn fær meira til hennar en lánið eitt. Menn verða að muna eftir því, að prestunum er bundin óþægilega þung byrði með lánunum, og mun mörgum þeirra reynast fullörðugt að greiða 200 krónur eða þar yfir í húsaleigu árlega. Jeg get búizt við að háu lánin muni beint fæla suma presta frá brauðunum, sem þau hvíla á.