15.07.1913
Efri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

34. mál, lán til byggingar íbúðarhúsa á prestssetrum landsins

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætla stuttlega að svara því, þar sem hv. frsm. (E. J.) kvað það eigi sjálfsagt, að veittar mundu jafnan 5000 kr. til húsabygginga á prestssetrum, þótt heimild væri til þess í Lögunum. Í ástæðunum fyrir frv. stjórnarinnar, sýnist það koma all ótvírætt fram, að ekki sje mikið á því byggjandi, að prestar geri sig ánægða með lægri lánsupphæð, ef kostur er á að fá hina hærri. Jeg held því enn fram, að það muni einatt reynast erfitt fyrir prestana, að standa straum af háum lánum, og þegar litið er á athugasemdir endurskoðenda við síðasta landsreikning, sjest, að þegar er farið að bóla á þessu, þrátt fyrir það þótt hvert einstakt lán hafi hingað til ekki verið nema 3000 kr. Hvers mun þá mega vænta, ef lánin yrðu hækkuð upp í 5000 kr. hvert ?