15.07.1913
Efri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

53. mál, friðun fugla og hreindýra

Guðjón Guðlaugsson, futningsmaður:

Mál þetta kemur hjer inn á þing eftir ósk nokkurra kjósenda minna við Hrútafjörð. Þar stendur svo á, að fyrir landi eru varphólmar bæði litlir og lágir. Lundi leitar í hólma þessa og grefur þar holur sínar. Þetta dregur úr æðarvarpi þar; æðarfuglinn kemst ekki fyrir, lundinn byggir honum út. Þetta bakar eigendum varplandanna tjón. Að vísu er töluverður arður af lundanum, en þó Iítill í samanburði við það sem æðarvarp mundi gefa af sjer, ef það gæti þrifizt þar í næði. Bændur þeir, sem hjer eiga hlut að máli, vilja mega hafa úti allar veiðibrellur til að eyða lundanum, þegar þeir sjá sjer hag í því. Lög þau, sem vitnað er í í fyrirsögn frv., eru, að því er lundaveiðar snertir, einkum miðuð við Vestmannæyjar. Þar þótti sem lundaveiði mundi í veði, ef netjaveiði væri leyfð takmarkalaus, en af því hjer var um þó nokkra atvinnugrein að ræða fyrir eyjaskeggja og hinsvegar ekki hætta á, að lundi spilti þar æðarvarpi, þá þótti rjett að vernda fuglinn og banna netjaveiði. Þar stóð því alt öðru vísi á en hjer.

En þótt lundinn verði ekki til að spilla æðarvarpi, getur hann unnið tjón á annan hátt; þar sem mikið er af honum grefur hann landið sundur og eyðileggur graslendi og spillir slægjulandi, sem að öðrum kosti gæti gefið góðan arð.

Af framangreindum ástæðum er farið fram á, að landstjórninni veitist heimild til, eftir tillögum sýslunefnda, að veita undanþágu frá friðunarlögunum frá 16. des. 1885; þar sem svo stendur á, að landeigendur óska þess og telja sjer það hagkvæmt. Þetta er fremur lítið mál og ætti að geta gengið fram án þess að nefnd fjallaði um það. Þó get jeg búist við að hv. d. vilji, að nefnd athugi það, og skal jeg ekki hafa á móti því. Gæti þá komið til mála að vísa því annaðhvort til nefndarinnar í málina á þgskj. 45: um breytingu á viðaukalögum frá 23. marz 1894 við tilskipun um veiði á Íslandi 20. júní 1849, eða til nefndarinnar í málinu, á þgskj. 46.: um friðun rjúpu. Þó tel jeg eiga betur við að að því sje vísað tit nefndarinnar í málinu á þgakj. 45; því að þar er beint um friðun æðarvarps að æða, eins og í þessu frv., og er það tillaga mín, að svo sje gert.