09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (157)

40. mál, hagur Landsbankans

Bjarni Jónsson:

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þetta sinn, en nú get eg ekki stilt mig um að skila nokkru til þessarar væntanlegu nefndar. Eg skal játa það, að mér varð það á — því miður, að vera ekki viðstaddur umræðurnar frá upphafi, en sumt af því, sem eg hefi heyrt af þeim, virðist mér ótrúlegt.

Eg heyri t. d. sagt, að það sé varhugavert, að landið taki meiri lán, en orðið er. Þetta felst eg ekki á, og hygg að það sé hættuleg skoðun, vegna þess, að nú hafa þegar verið tekin svo mikil lán, og hrundið af stað svo mörgum og stórum fyrirtækjum, bæði á sjó og landi, að þau megi alls eigi stöðva. Og þar sem ekki er fé að fá hér í bönkunum, þeim til framhalda, þá verður að leita til útlanda. Hentugasta aðferðin væri auðvitað sú, að fá komið íslenzkum verðbréfum á erlenda markaði, og ef það er rétt, að bréfa verð sé nú lágt, þá yrði það starf nefndarinnar, að finna veg til þess, að gera þau sem útgengilegust. Hættan liggur ekki í því einu, að taka lán, heldur miklu fremur í hinu, að taka lán með vondum kjörum. Þess vegna væri betra að taka stærri lán — helzt annarstaðar, en gert hefir verið, — reyna að komast frá hjá andróðri, þeim sem eg veit að Danir hafa í frammi gegn lánstrausti voru. Taka nægilega stóri lán til þess, að geta borgað þeim það; sem þeir hafa lánað oss, og auk þess nóg til þess, sem þarf til framhalds allra nauðsynjafyrirtækja innan lands. Þótt það væri mikið, yrði það ekki svo geisilega hátt í samanburði við framleiðsluna. Eg veit ekki betur, en að hún sé sé um 25–30 milljón kr. á ári hjá þessunn 85 þús. Íslendinga. Þar er að vísu ekki dregið frá það, sem þjóðin þarf beinlinis til viðurværis sér, matar o. s. frv., er samt svo mikið eftir, að óhætt mundi að taka allstórt lán til þarfra fyrirtækja.

Þá þótti mér undarlegt að heyra, að lánin ættu að vera stutt. Ef taka skal slík lán á annað borð, þá þurfa þau einmitt að vera löng. (Björn Kristjánsson: Hvað eru stutt lán ?). 25 ára lánin, sem nú tíðkast, eru t. d. óhæfilega stutt. Og 50 og upp í 70 ára lán fyrir fasteign eru alls ekki of löng. (H. Hafstein: Til þúfnasléttunar?). Eg hugsa að hæstv. ráðh. mundi ekki taka slíkt lán til þúfnasléttunar, en ef hann ætlaði t. d. að reisa sér stórhýsi úr steini, þá gæti það ef til vill verið honum þægilegt. Það getur verið að hann þyrfti þess ekki, af því að hann hefir nú svo góð laun og eftirlaun, en okkur hinum mundi koma það vel.

Eg skal svo ekki tala meira. Eg vildi að eins mega bera nefndinni þessi skilaboð, bæði frá mörgum af kjósendum mínum, og þá ekki síður fjölda manna hér í Reykjavík, sem ætla að sligast af því að lánin, sem þeir þurfa að taka, eru of stutt og of dýr.