16.07.1913
Efri deild: 10. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Björn Þorláksson:

Þetta mál er komið hingað frá háttv. neðri deild; var þar engin nefnd sett í málið. En þangað var frv. komið frá stjórninni, og var óskað eftir að því væri hraðað, og því mun engin nefnd hafa verið sett í það.

Jeg lít svo á, sem það geti verið ástæða til þess, að setja frv. í nefnd; jeg kann fyrir mitt leyti ekki við orðalagið á þvi. Jeg fyrir mitt leyti vil veita hr. Steingrími Thorsteinsson alla sæmd sem skáldi, og jeg efa ekki, að aðrir háttv. þingm. sjeu mjer samdóma um það efni. Jeg hef því fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að veita honum skáldastyrk, sem hann á skilið, og get að því leyti fallizt á frv., ef það er ætlunin með því, en mjer finst orðalag frv. rýra þá meiningu., því þar er sagt: „þá er skáldið Steingrímur Thorsteinsson lætur af rektorsembættinu.“ Þetta má skilja svo, sem það sje greiðsla til hans fyrir að hætta rektorastarfi sínu eða þá viðbót við eftirlaun hans, en því er jeg mótfallinn, því eftir því sem álitið er hjer í Reykjavík, þá er hann efnaður maður, sem vel getur komizt af með lögmælt eftirlaun sín. Jeg vil því leggja til, að kosin verði þriggja manna nefnd til að íhuga mál þetta, að þessari fyrstu umræðu lokinni.