16.07.1913
Efri deild: 10. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

37. mál, hagstofa Íslands

Steingrímur Jónsson:

Það kann að vera rjett, að nefndin hafi ekki litið nægilega á verri hliðina á þessu máli, kostnaðarhliðina, en hinsvegar er það ekki rjett hjá háttv. þm. Barðstr. (H. Kr.), að nefndin hafi gengið þegjandi framhjá þessu. Það er sýnt með ljósum tólum, að kostnaðaraukinn við þetta fer ekki fram úr 4 þús, kr., og kostnaðurinn eykst ekki meir með þessu fyrirkomulagi, sem frumv. ætlast til. Skýrslurnar fara vaxandi — og þá kostnaður við samning þeirra, ef stjórn arráðið verður látið annast þær, eins og hingað til.

Háttv. þm. Barðstr. hefur ekki gætt þess, hve landshagsskýrslur eru mikils virði. Þær eru ekki aðeins góðar, heldur óhjákvæmilega nauðsynlegar, ef vjer eigum ekki að dragast aftur úr öðrum menningarþjóðum. Við getum ekki komizt hjá því, að fá betri skýrslur en við höfum fengið til þessa.

Þetta er þungamiðja frumvarpsins. Spurningin er þá um það, hvort vjer eigum heldur að gera þetta með því að auka starfskrafta stjórnarráðsins eða koma á fót sjerstakri stofnun til þess, eins og frv. ætlast til. Um þetta atriði má deila.

Það er rjett, sem háttv. þm. Barðstr. tók fram, að það er athugavert við þetta frv., að það stofnar ný embætti. Þetta sá nefndin, og vildi því ekki stofna nema eitt nýtt embætti, en sumir háttv. þingdeildarmenn telja nefndina þar hafa farið of skamt.