19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Einar Jónsson:

Jeg er yfirleitt samþykkur efni og stefnu frumvarpsins.

Þá er slík mál sem þetta frv. koma fram, álít jeg, að fara verði varlega í, að ekki megi ganga mjög nærri persónufrelsi manna. Þessvegna hef jeg leyft mjer að koma fram með breytingartillögur mínar.

Háttv. framsögum. (Jósef. Bj.) gat þess, að það hefði gleymzt eða skotizt yfir að miða ákvæðið um notkun fornafna við lögaldur. Jeg hef stungið upp á, að binda það atriði við 18 ár. Þá eru menn hálfmyndugir og geta gert ýmsa samninga með samþykki tilsjónarmanns síns, og þykir mjer því rjettara, að miða ákvæðið við það aldurstakmark. Sá, sem heitir mörgum nöfnum, getur heldur viljað, þegar hann eldist, taka upp það nafn, sem hann var ekki kallaður, meðan hann var yngri, og slíkt er sjálfsagt að leyfa, og þótti hæfilegt, að miða það við 18 ára aldur, því að þá á maðurinn að vera orðinn nógu gamall til að ákveða það, hvort hann vill heldur nota annað nafn en áður; og því fremur tók jeg þetta aldursmark til, sem nefndin miðar einmitt nafnaskifti í 3. gr. við 18 ára aldur. Annars stendur mjer í rauninni á sama, hvort miðað er við 18 ár eða 25 ár.

2. brtill. mín eða b.-liðurinn í brtill. fer fram á að fella burt úr brlill. nefndarinnar, 2. gr., sem á að verða í frv., þessi orð: „og skal hann rita þau fullum stöfum nema stytting sje heimiluð, sbr. 8. gr.; og sleppa að öllu þeim fornöfnum sínum, sem hann notar ekki“. Jeg vil helzt, að menn megi ráða því sjálfir, hvernig þeir rita nafn sitt, hvort þeir rita það með fullum stöfum eða skammstafa það, og í þessu, sambandi skal jeg geta þess, að jeg er ósamþykkur nefndinni um 8. brtill. b. 2 um, að stjórnarráðið láti semja og gefa út skrá yfir skammstafanir á fornöfnum manna, er heimilt sje að nota. Jeg vil helzt hvoruga skrána, sem talað er um í stafl. b. Jeg sje ekki, að nauðsyn sje á hinni fyrirhuguðu ættarnafnaskrá. Og skrá yfir skammstafanir er lítt semjandi. Það væri meiri ástæða, til að ákveða, að allir væru skyldugir til að rita nafn sitt svo skýrt, að hægt væri að lesa það, því það er eins og sumir hafi ánægju af því, að skrifa nafn sitt svo óskýrt, sem hægt er.

3. brtt. mín fer fram á að fella burt orðið „venjulega“ í næstu málsgr. í 2. gr. Nefndin setur fram almenna reglu í þeirri málsgrein, en gerir svo í næstu málsgrein á eftir undantekning frá þeirri reglu, sem sje, að föðurnafn megi skammstafa á undan kenningar- eða ættarnafni, og hygg jeg, að það sje í rauninni eina undantekningin, sem hún vill gera frá hinni almennu reglu, en þá á orðið „venjulega“ að falla burtu.

Hæstv. umbm. ráðherra minntist á þessar brtill. minar og var þeim samþykkur, og eg vona, að h. deild geti einnig fallizt á þær.

Um 2. málsgr. í 3. gr. í brtill. nefndarinnar óska jeg þess, að hún verði borin upp í tvennu lagi, þannig, að setning in: „þessi nafnskifti mega ná til barna hennar“ og út, sje borin upp sjer. Jeg er mótfallinn henni af sömu ástæðu og háttv. umboðsm. ráðherra (KI. J.) tók fram.

Við 7. brtl. nefndarinnar hef jeg sömu athugasemdir að gera og háttv. umboðsm. ráðh. (KI. J.). Jeg er bæði mótfallinn ákvæðinu um sen og dóttir eins ákvæðinu um að leita og hlífa úrskurði íslenzku kennara Mentaskólans um, hvort etthvert nafn sje hafandi í málinu. Jeg kann ekki við ákvæðið um að „hlíta úrskurði hans“. Jeg kynni betur við, að þar stæði að eins að leita skyldi álita hans. Hugsazt getur, að þá stöðu skipi einhver sjervitringur, er fer oflangt í þessu efni. Mjer er þetta samt ekkert kappsmál.

Um 11. gr. tek jeg það fram, að jeg óska, að orðin „eftir sem áður“ í fyrri málsgrein hennar falli burt. Þau eru með öllu óþörf.

Síðari hluti þessarar greinar er og varhugaverður. Mjer finst prestum vera fengið of mikið vald í hendur. Það er og mikil spurning, hvað skilja á við „hneykslanleg nöfn“. Jeg vildi gjarnan orða það á annan veg. Ef nöfnin eru verulega hneykslanleg eins og sum þau nöfn, sem háttv. framsm. (Jós. Bj.) tók fram, þá er rjett, að prestur hafi rjett til að neita að skíra þau. En annars kýs jeg helzt, að hann hafi að eins tillögurjett um þau nöfn, er skíra á, og vildi óska, að ákvæðið væri orðað á þá leið. Ef presturinn er laginn, þá getur hann ráðið miklu um nöfnin, ef þau eru nokkuð athugaverð. Jeg segi þetta ekki út í loftið, heldur af eigin reynslu. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir, að mjer hefur ekki geðjazt að þeim nöfnum, er foreldrar í fyrstu vildu hafa, og jeg hef þá bent þeim á, hvað mjer þætti að, og leiðbeiningar minar hafa æfinlega verið teknar til greina, ef mjer hefur þótt nokkru skifta.

Jeg hef ekki viljað gera fleiri brtill. að þessu sinni. Jeg vil sjá, hvað samþykt verður af breyttill. nefndarinnar. Það verður betra að átta sig á málinu, er allt er komið í eina heild.