19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Umboðsmaður ráðherra (Kl. J.):

Jeg finn ástæðu til að taka enn að nýju til skoðunar 3. br.tilt. h. nefndar. Hún verður því athugaverðari, því nánara sem hún er athuguð. Setjum svo, að kona skilji við mann sinn og hafi átt með honum tvo drengi, og að þessir drengir sjeu barnungir, svo sem 3 og 5 ára, þegar skilnaðurinn gerist. Eftir tillögu nefndarinnar er henni frjálst, að taka upp hið fyrra ættarnafn sitt ekki einungis fyrir sig sjálfa, heldur líka fyrir drengina sína, og þetta gerir hún kannske, eða að minnsta kosti meðfram í hefndarskyni við manninn. En á þeim aldri er ekki við því að búast, að þeir sjeu færir um að gera sjer grein fyrir, hverja þýðingu nafnabreytingin geti haft fyrir þá. Því getur hæglega svo farið, og er næsta eðlilegt, að þegar þeir eru komnir til vits og ára, þá vilji þeir taka upp ættarnafn föður síns; en nú er þeim það fyrirmunað, því að eftir tillögu h. nefndar, 5. gr. 6, í endanum á enginn að geta fengið breytt nafni sínu oftar en einu sinni. Það er nokkuð hart, að mönnum skuli vera fyrirmunuð nafnbreyting á fullorðins aldri af þeirri sök, að nafninu hefur verið breytt af öðrum, meðan þeir voru á óvita aldri. Þetta bið jeg h. nefnd að athuga vandlega, og jeg tek undir með h. 2. þm. N.- Múl. (E. J.), að eg óska, að þessi liður verði borinn sjerstaklega undir atkvæði.