19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Guðmundur Björnsson:

Jeg vil minnast örfáum orðum einmitt á þetta atriði, sem háttv. umboðsmaður ráðherra (Kl. J.) talaði um. Byrja jeg á því, að jeg óska, að háttv. deild láti vera að fella brtll. nefndarinnar við þessa umræðu; það er tími til stefnu að gera það við 3, umr., ef málið hefur þá ekki skýrzt þannig, að samkomulag náist.

Það hefur verið sagt, að 3. brtl. nefndaninnar væri brot á þeirri reglu, að ættarnöfnin gangi í beinan karllegg. Hitt er raunar líka brot á reglunni, að menn megi taka upp ný ættarnöfn og leggja gömul niður, og eigi veldur það minni ruglingi fyrir ættfræðingana. Eg veit ekki betur, en það sje almenn regla, þar sem ættarnöfn tíðkast, að kona, skilin við mann sinn, geti fengið leyfi til þess, að börnin taki upp ættarnafn hennar. Skal jeg þar vísa í dönsk lög frá 22. apríl 1904 um þetta efni; þar er það leyft. Hjer finna menn ekki mjög til þessarar þarfar, en öllum, sem verið hafa í öðrum löndum, mun vera það Ijóst, hvernig á því stendur, að móðir þráfaldlega óskar þess, að börn hennar beri ættarnafn hennar en ekki mannsins. Hjónaskilnaðurinn stafar ekki svo sjaldan af því, að maðurinn hefur aðhafzt eitthvað, sem varpar skuggabletti á nafn hans, og þá er það ofur skiljanlegt, að móðirin vilji koma í veg fyrir það, að ættarnafn barnanna verði þeim sí og æ til vanvirðu.

Jeg bið því háttv. deild að íhuga það vandlega, hvort rjett sje að fyrirmuna með öllu móðurinni, að láta börn sín taka upp sitt ættarnafn hvernig sem á stendur. Háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) sagði, að það væri hart, að maður gæti ekki tekið upp ættarnafn föður sins aftur, ef móðir hans hefði fengið honum annað ættarnafn, þegar hann var á óvita aldri. Þetta mun varla vera rjett athugað, því hafi móðirin fengið breytingu á ættarnafni óvita barns síns, eða meðan það var ekki sjálfu sjer ráðandi, þá hefur það ekki breytt nafni sjálft, og ætti því að geta fengið síðar leyfi til nafnbreytingar. Þegar athugað er, hve afarmargbreyttar orsakir hjónaskilnaðar eru, þá verður það skiljanlegt, að það komi fyrir, að móðirinni sje mjög um geð, að börniu beri ættarnafn föðursins, og að ógeð þetta sje bygt á fullum rökum. Þetta vill nefndin að tekið sé til greina.

Þá er að minnast nokkuð á endingarnar son og dóttir. Það mun satt vera, að nú endi ekkert ættarnafn á dóttir, er nefndinni virðast ættarnöfn, sem enda á son jafn aflagisleg og vildi vekja athygli á því — nefndi þessvegna hvorttveggja.

Nefndin vill ekki hafa endinguna son í ættarnöfnum, því að þótt hún tíðkist annarsstaðar, á það fjarska illa við eðli islenzkrar tungu að hnýta henni óbeygjanlegri aftan við nöfn. Mundi það ekki láta illa í íslenzkum eyrum, að heyra einhvern segja, að hann ætlaði heim til Lárusar Bjarnason? Enn kemur það til greina, að sá, sem verður fyrstur að krækja sér í eitthvert ættarnafn upp á son, bægir öllum öðrum frá að taka það, þótt þeir að öðru leyti hafi alveg sama rjett til þess sem hann. Þannig útilokaði sá, sem fyrstur tæki upp ættarnafnið Jónsson, alla aðra frá að taka það ættarnafn. Einn þeirra manna, sem nú sitja á þingi, hefur Bjarnason að ættarnafni. Það ættarnafn hafði hann tekið fyrir 1. jan. 1901, og eru með því allir útilokaðir frá því eftirleiðis að taka sjer það ættarnafn, ef frv. stjórnarinnar væri fylgt. Jeg hygg, að stjórnin hafi ekki hugsað til fulls um það, sem jeg hef fært hjer fram. Skal jeg svo enda ræðu mína með því að ítreka þá ósk mina, að brtill. nefndarinnar um rjett fráskilinna kvenna til að taka upp ættarnafn sitt fyrir sig og börn sin, verði eigi feld að þessu sinni, og lang helzt óska jeg, að löggjöf vor verði í þessu látin vera í samræmi við löggjöf annara landa.