19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Framsögumaður (J. B.):

Jeg verð að mótmæla því, að það sje rjett hjá h. þm. V.-Sk. (S. E.), að nafnbreytingarnar valdi litlum glundroða í viðskiftalífinu. Maður, - sem þessu er mjög kunnugur, h. 2. kgk. (E. Br.), segir mjer, að það hafi komið fyrir, að menn hafi orðið að hverfa frá og ekki getað fengið lán í landsbankanum sökum nafnbreytinga. Annarstaðar má og fá mörg dæmi þess, að nafnbreytingar hafa valdið glundroða í viðskiftalífinu. Jeg vil með leyfi h. forseta lesa nokkuð upp úr ræðu h. flutn.m. máls þessa á síðasta þingi (Guðl. G.). Eftir að hann hefur nefnt ýms dæmi, segir hann:

„T. d. hefur það viljað til í sakamáli, að stúlka hefur heitið Sigríður Ingibjörg Jónsdóttir. Hún var fædd í Húnavatnssýslu, en átti heima í öðru lögsagnarumdæmi og komst þar í þjófnaðarmál. Svo hverfur hún, og fyrir hendingu vitnaðist, að hún hefði skift um nafn, hjet áður Sigríður Jónsdóttir, en kallaði sig nú Ingibjörg Vatnsdal. Auðvitað nefni jeg ekki rjett nöfn, vil ekki gera það hjer í þingsalnum“.

Mjer dettur ekki í hug, að h. flutn.m. (Guðl. G.) hefði borið þetta fram, hefði hann ekki rekið sig á það. (S. E.: Þetta er að eins eitt dæmi). Hjer er eitt nefnt, en mörg fleiri mætti færa til, ef vildi. Fyrir skömmu hefur mjer verið sagt frá manni, sem hjet tveim nöfnum. Í einum landsfjórðungnum nefndist hann síðara nafninu; þar komst hann í klandur. Síðar fluttist hann í annan landsfjórðung. Þegar þangað kom, tók hann upp hitt nafnið. Mundu ekki hafa getað stafað óþægindi af þessu?

Það er satt, að það er torvelt að vernda málið til fulls með löggjöf; en sjálfsagt er það þó, að löggjafarvaldið geri alt, sem það getur til þess, og hjer er stigið spor í þá átt.