19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Sigurður Stefánsson framsögumaður:

Við fyrstu umræðu þessa máls hjer í háttv. deild tók jeg fram svo greinilega sem mjer er hægt, af hverju það væri, sem frumv. þetta er fram komið, svo jeg hefi þar engu við að bæta; einkanlega þar sem háttv. nefnd hefur skýrt málið í áliti sínu.

Þó er það ein mótbára, sem jeg gæti hugsað mjer, sem jeg vildi minnast á, og það er, að leið þessi sje nokkuð seinfarin, og skal jeg fvrir mitt leyti játa, að svo er, en þar til er því að svara, að jeg býst ekki við, að landssjóður geti að svo stöddu lagt út í svo mikinn kostnað, að taka að sjer landhelgisvarnirnar, heldur verði hann smátt og smátt að búa sig undir það, að geta tekið þær að sjer, að meiru eða minna leyti. Þetta frumv, ber því að skoða aðeins sem undirbúning undir það, að geta síðar tekið að minsta kosti verulegan þátt í landhelgisvörninni.

Að öðru leyti ber nefndarálitið svo greinilega með sjer, hver skoðun nefndarinnar er, að jeg finn ekki ástæðu til þess að tefja tímann með því að fara frekar út í málið, að minsta kosti ekki fyr, en mótmæli koma fram.

Nefndin hefur gert eina breytingartillögu, sem sje þá, að sjóðurinn skuli vera ávaxtaður í Landsbankanum, í stað þess að í frumv. stóð í einhverri trygðri peningastofnun. Það hafa síðan komið fram raddir um það, að það sje ekki rjett, að ganga framhjá Landsbankanum með ávöxtun opinberra sjóða, og nefndinni virðist þetta vera rjett, og vildi þessvegna taka það greinilega fram, að fje sjóðs þessa skyldi ávaztast í Landsbankanum. Það má ennfremur á það líta, að með því að ávaxta sjóð þennan þar, þá eykst talsvert fje það, er hann hefur til umráða; veltufjeð verður meira, svo hann getur lánað meira út, og þannig orðið fleirum að liði.