19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

52. mál, sala á þjóðjörðinni Reykjum í Hrútafirði

Klmens Jónsson, umboðsmaður ráðherra:

Jeg stend ekki upp til að mæla á móti sölu þessarar þjóðjarðar. Þvert á móti. Jeg er henni hlyntur, en jeg ætla aðeins að skýra háttv. deild frá þeim ástæðum, er voru þess valdandi, að stjórnin neitaði sölu á þessari þjóðjörð.

Stjórnin hefur altaf litið svo á, og skilið 2. gr. laga um þjóðjarðasölu þannig, sem henni væri óheimilt að selja jarðir, þar sem löggiltur verzlunarstaður væri í landareigninni. Nú stóð svo á, að í landi þessarar þjóðjarðar, er hjer um ræðir að selja, er Iöggiltur verzlunarstaður, Reykjatangi, löggiltur með lögum nr. 40, 24. nóv. 1893. Hann hefur að vísu ekki enn verið notaður til verzlunar. En stjórnin álítur ekki orðalag áminstrar greinar í þjóðjarðasölulögunum svo skýrt, að af þeirri ástæðu mætti selja jörðina, að verzlun ekki er enn á komin. Nú hagar svo til um þennan löggilta verzlunarstað, Reykjatanga, að hann liggur beint á móti Borðeyri, og eftir það, að hann var löggiltur, var löggiltur verzlunarstaður á Hvammstanga, og hann hefur, eftir því, sem jeg frekast veit, lagt undir sig uppland það, sem Reykjatangi hefði ella fengið, ef verzlun hefði verið sett þar á stofn. Það er því ekki líkur til, að þar komist verzlun á, og sýslunefnd VesturHúnavatnssýslu telur og litlar líkur til, að verzlun komist þar á fót. Stjórnin sá, sem sagt, ekkert athugavert við söluna annað en það, að hún taldi sig vanta heimild til hennar. Og með samþykt þessa frumvarps samþykkir þingið skilning stjórnarinnar á þeim lögum, sem jeg nefndi. Þessa skoðun stjórnarinnar hef jeg talið mjer skylt að bera hjer fram í deildinni, svo það sæist, á hverju neitunin var bygð.