19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

28. mál, ábyrgðarfélög

Sigurður Eggerz:

Jeg á hjer 2 brtill., ásamt fleiri þingdeildarmönnum, á þgsk. 64 og 104. Jeg sný mjer fyrst að seinni tillögunni. Hún fer fram á það, að eftir orðinu „ríkisins“ í 1. línu komi: ;,hins almenna brunabótafjelags kaupstaðanna í Danmörku“. Ástæðan til þessarar brtill. er sú, að Reykjavíkur kaupstaður vátryggir í þessu fjelagi, með óvenjugóðum kjörum. Við flutningsmenn erum hræddir um, ef farið yrði að leggja þessu fjelagi einhverjar byrðar á herðar, að þær kynni að verða til þess, að það kipti að sjer hendinni, með ábyrgðarstarfsemi hjer á landi, til tjóns fyrir Reykjavík. Við viljum því algerlega undanþiggja þetta fjelag ákvæðum laganna.

Hin brtill. er á þgsk. 64, og þar er lagt til, að burt falli 13. málsgr. 2 gr., er svo hljóðar: „Ákvæði þessarar greinar taka ekki til hins almenna brunabótafjelags kaupstaðanna í Danmörku, nje til annara fjélaga, sem hafa rekið ábyrgðarstarfsemi hjer á landi í full 20 ár, þá er lög þessi öðlast gildi“. — Ákvæði þau, er hjer er um að ræða, eru aðallega 3: 1. að ábyrgðarfjelag, er hjer rekur starfsemi, hafi hjer umboðsmann, 2. að það hafi varnarþing hjer á Iandi, og 3., að það setji þá trygging, er stjórnarráðinu þykir nægja. Okkur flutningsmönnum brtill. þótti ekki ástæða til þeirra undantekninga frá þessum ákvæðum, er frumvarpið fer fram á. Lítum svo á, að ekki sje síður ástæða til að heimta af þessum fjelögum, en öðrum ábyrgðarfjelögum, að þau hafi varnarþing og umboðsmann. Og þó fjelög þessi sjeu trygg í augnablikinu, þá er engin vissa fyrir, að svo verði jafnan. Jeg fæ ekki skilið, hvaða ástæða sje til þess, að ætla, að fjelög þessi hætti starfsemi sinni, þó Iögin sjeu látin ná yfir þau. Jeg geng út frá, að vegna þeirra eigin hagsmuna haldi þau áfram að starfa hjer, og jeg fæ ekki sjeð, að þau skilyrði, sem heimtuð eru, geti á nokkurn hátt gert þeim þá erfiðleika, að ástæða sje til að ætla, að hagur þeirra af starfseminni minki. Hvaða örðugleikar eru fyrir fjelögin, að hafa varnarþing og umboðsmann hjer. Og hvaða óþægindi getur það valdið tryggum fjelögum, þó þau hafi eitthvað af verðbrjefum sínum liggjandi hjer til tryggingar. Hinsvegar er það Ijóst, að hagsmunum landsmanna er illa borgið, ef ákvæðin í 2. gr. ná ekki til fjelaganna. Hvílíkt tjón getur ekki hlotizt af því, ef fjelög með víðtækum viðskiftum við landsmenn yrðu gjaldþrota. En geri löggjafarvaldið ekkert í þessu máli, renna landsmenn blint í sjóinn með, hver fjelög sjeu trygg og hver eigi.

Enn ber þess að gæta, ef við undanskiljum nokkur fjelög, þá er með þessu móti mynduð nokkurs konar einokun fyrir þau.

Um brtill. nefndarinnar, skal jeg geta þess, að jeg sje ekki ástæðu til að samþykkja hana. Jeg sje ekki, að við sjeum betur farnir, þótt ákvæðið sje 10 ár, því þess fleiri eru þau fjelög, sem undanskilin verða ákvæðum 2. gr. Rjett er, að benda á, að eitt þeirra fjelaga, er undantekning nefndarinnar mundi snerta, hefur nýlega orðið gjaldþrota.