10.07.1913
Neðri deild: 8. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (164)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Matthías Ólafsson:

Eg hefi alt af álitið, að varlega væri í það farandi að samþykkja nokkuð það, sem legði haft á atvinnuvegina, en eg þykist sjá, að þetta frv. gangi í þá átt. Það hefir oftast orðið sú reyndin á með samþyktarlög, að þau hafa heft atvinnuvegina, en þó ekki komið að tilætluðum notum. Eg skal ekkert um það Segja, hvort hringnótaveiði spilli veiði í lagnet og nætur, en hitt er mér kunnugt um, að á Vestfjörðum voru firðirnir fullir af hafsíld á árunum 1890–1900, en fyrir það tók áður en hringnótaveiðin byrjaði. Og svo er viðar; síldin legst frá, án þess að hægt sé að benda á orsakir. Líkt var um ósköpin, sem á gengu út af hvalveiðunum; þær áttu að vera orsök aflaleysisins. En sumstaðar, í kringum hvalveiðastöðvarnar jókst fiskurinn beinlínis, vegna ætisins, sem þar varð í sjónum. Mín skoðun er sú, að ef mönnum þykir ekki lengur borga sig að veiða síld með lagnetjum og nótum, þá eigi þeir að taka upp hringnætur. Eins og nú er ástatt, eru það innlend botnvörpuskip, og þau allmörg, sem stunda þessa veiði Og ef þau ættu að verða af þeim hag, sem af þessari veiði verður, vegna nokkurra Eyfirðinga, sem þó er í lófa lagið að hafa sama hagræði af aflanum, ef þeir notuðu sama veiðiáhaldið — ef in innlendu botnvörpuskip yrðu af þessum afla, segi eg, þá væri verr farið. Eg álít, að mál, sem hefir svo mikil áhrif sem þetta, hefði átt að athugast í sérstakri nefnd, að siðaðra þjóða vanda, er svo hefði lagt fram álit sitt eftir rækilegan undirbúning.